Fréttir

24.6.2014

Olíuleitarsvæði á landgrunni Íslands

Kristinn Einarsson

Rótarýfundurinn 24. júní var í umsjón Alþjóðanefndar en formaður hennar er Hallgrímur Jónasson. Fyrirlesari á fundinum var Kristinn Einarsson frá Orkustofnun og fjallaði hann um möguleika okkar á olíuleitarsvæðinu á landgrunni Íslands. Þriggja mínútna erindi flutti Haukur Hauksson.

Í upphafi fundar greindi forseti frá því að arkitekt hússins hefði hafnað hugmyndum um að hafa Rótarymerkið utaná húsinu en verið væri að leita lausna.

Þriggja mínútna erindi flutti Haukur Hauksson. Hann sagðist hafa rætt um nauðsyn uppbyggingar á ferðamannastöðum fyrir tveimur árum og ætlaði að tala um sama mál núna þar sem nú væri það enn meira aðkallandi. Árið 2013 voru erlendir ferðamenn um 780 þúsund og er reiknað með að fjöldinn nálgist milljón á þessu ári þannig að álagið eykst stöðugt.

Reiknað er með að árleg fjármagnsþörf til uppbyggingar og rekstrar á ferðamannastöðum sé um 1 milljarður en á meðan deilt er um hvort leggja skuli á gistináttagjald eða taka upp ferðamannapassa hafa framlög til rekstrar dregist saman og landvörðum fækkað. Einstaka landeigendur eru farnir að rukka gjald, sem engin trygging er fyrir að skili sér í bættri aðstöðu. Ljóst er að ferðaþjónustan mun halda áfram að vaxa og nauðsynlegt að hraða úrbótum.

Fundurinn var í umsjón Alþjóðanefndar og kynnti formaður hennar Hallgrímur Jónasson fyrirlesarann. Kristinn Einarsson er vatnafræðingur og sótti menntun sína til háskólanna í Leningrad og Kaupmannahöfn. Hann hefur starfað hjá Orkustofnun frá árinu 1978 og er nú yfirverkefnisstjóri auðlindanýtingar.

Kristinn vann að undirbúningi umhverfismats áætlana fyrir Drekasvæðið og að samningum við Norðmenn vegna gagnkvæmra réttinda á Jan Mayen hryggnum.

Í erindi sínu sagði hann frá útboði sérleyfa á Drekasvæðinu sem lauk í apríl 2012 og voru tvö leyfi veitt í janúar 2013 og það þriðja í ársbyrjun 2014. Fyrirtækin sem hafa fengið leyfi til undirbúningsrannsókna sem enda með borun einnar tilraunaholu eru: Faroe Petroleum, Ithaca Petroleum og CNOOC International. Þessi fyrirtæki munu vinna í 7 til 12 ár að rannsóknum áður en vinnsluleyfi verða boðin út.

Kristinn lýsti einnig jarðfræðilega hvaða skilyrði þyrfti að uppfylla til að olíuvinnsla væri möguleg og var eitt þeirra að olían þyrfti að hafa lokast af undir mjög þéttu bergi sem héldi henni í skefjum.