Fréttir

10.6.2014

Grænland og skákin

Hrafn Jökulsson

Rótarýfundurinn 10. júní var í umsjón Ungmennanefndar en formaður hennar er Guðbergur Rúnarsson. Þriggja mínútna erindi flutti Þórir Ólafsson. Hrafn Jökulsson sagði frá samskiptum sínum við Grænland, einkum varðandi kynningu skáklistarinnar fyrir æsku landsins.

Í upphafi fundar minnti forseti á golfmót rótaryklúbbanna og hvatti áhugasama til að skrá sig.

Hann sagði einnig frá umræðu um að merkja húsið þar sem við höldum fundi með merki Rótary. Jón Emilson er að skoða hvort hann geti látið útbúa merkingu á smekklegan hátt.

Þriggja mínútna erindi flutti Þórir Ólafsson en hann lýsti fallegri leið í nágrenni höfuðborgarinnar sem er Hlöðuvallaleið og sýndi myndir af leiðinni. Leiðin liggur frá Kaldadalsvegi, en beygt er af henni rétt norðan við Sandkluftavatn til austurs norðan við Lágafell og keyrt sunnan við Skjaldbreið og að Hlöðuvöllum sem eru rétt sunnan við Hlöðufell sem er hæsta fjallið á svæðinu 1188 m. Nú er kominn annar vegur, Línuvegurinn sem einnig liggur frá Kaldadalsvegi en fer norðan við Skjaldbreið og Hlöðufell. Frá Hlöðuvöllum liggur leiðin um Miðdalsfjall niður á aðalveginn austan við Laugarvatn. Sunnarlega á Miðdalsfjalli er Gullkista, en þaðan sagði Þórir að væri glæsilegt útsýni yfir sunnlenskar sveitir. Þórir tók fram að þessi leið væri einungis fyrir bíla með fjórhjóladrifi.

Fundurinn var í umsjón Ungmennanefndar og kynnti formaður hennar Guðbergur Rúnarsson fyrirlesarann sem var Hrafn Jökulsson. Hrafn er sonur Jökuls Jakobssonar rithöfundar og leikskálds og Jóhönnu Kristjónsdóttur blaðamanns, rithöfundar og ferðafrömuðar. Hrafn hefur starfað við allt mögulegt og m.a. stundað ritstörf eins og foreldrarnir en þekktastur er hann í seinni tíð fyrir að vera stofnandi og forseti skákfélagsins Hróksins og ungmennastarf tengt því, bæði hérlendis og á Grænlandi en um það fjallaði fyrirlesturinn.

Hrafn sagði að eftir að félagar í Hróknum hefðu heimsótt alla grunnskóla á Íslandi hefðu þeir talað um að færa út kvíarnar og útbreiða fagnaðarerindið á erlendri grundu og 2003 fór stór sendinefnd til Grænlands. Í þeirri ferð var stofnað Skáksamband Grænlands og auk þess nokkrir skákklúbbar. Þó að ferðin hefði tekist vel töldu menn ljóst að hún væri tilgangslaus ef henni væri ekki fylgt eftir og nú 12 árum síðar eru ferðir Hróksmanna til Grænlands að nálgast 40 og þeir heimsækja grunnskóla og kynna skák líkt og gert var á Íslandi

Undanfarið hefur aðaláherslan verið á þorp á Austur Grænlandi en þar er félagslegt ástand verst. Ein ástæða þess taldi Hrafn vera þá að skólabækur sem notaðar eru við kennslu væru á máli sem talað er í Nuuk og er talsvert frábrugðið þeirra máli og kennarinn svo danskur. 

S.l. vetur héldu Hróksmenn einnig skákhátíð í Upernavik á Vesturströndinni á 72. gr. norður og voru þar í algeru myrkri. Í Upernavik hefur fundist rúnasteinn frá norrænum mönnum. 

Vinafélag Íslands og Grænlands Kalak hefur einnig staðið fyrir ferðum grænlenskra ungmenna til að læra sund á Íslansdi og mun 9. hópurinn koma í haust.