Fréttir

5.6.2014

Varnir og öryggismál í ljósi breyttra aðstæðna í Evrópu

Einar Benediktsson, fv. sendiherra

Rótarýundurinn 3. júní var í umsjón Alþjóðanefndar en formaður hennar er Hallgrímur Jónasson. Fyrirlesari á fundinum var Einar Benediktsson frv. sendiherra og fjallaði hann um varnir og öryggimál í ljósi breyttra aðstæðna í Evrópu og um hagsmuni Íslands í breyttri heimsmynd. Þriggja mínútna erindi flutti Kristófer Þorleifsson.

Í upphafi fundar sagði forseti frá því að nýstúdentinn úr MK, Darri Egilsson, sem fékk viðurkenningu frá Rótaryklúbbnum á dögunum hefði fengið hæstu meðaleinkunn sem nokkurn tíman hefur verið gefin við skólann.

Hann minnti einnig á Golfmót Rótaryklúbbanna sem verður 26. júní.

Hrafn Harðarson tók til máls og afhenti formanni fána rótaryklúbbsins í Ventspils en þar hefur hann mætt á tvo fundi og afhent okkar fána. Annars hefur hann verið við skriftir á skáldsögu og dvalið í fræðimannaíbúð þar í borginni.

Þriggja mínútna erindi flutti Kristófer Þorleifsson. Hann sagði frá rjúpnaveiðiferð sem hann fór í með Sigfinni bróður sínum og lögðu þeir leið sína á Lyngdalsheiði. Þeir fóru í blíðviðri á heiðina og ákváðu að fara í stutta rannsóknarferð um svæðið áður en aðalveiðiferðin hæfist og skildu mat og vatn eftir í bílnum en tóku byssur með. Fljótlega skall á blindhríð og ætlaði Kristófer að ganga til suðurs í átt að bílnum en lenti á Þingvöllum löngu síðar og hafði því gengið í þveröfuga átt. Þar var allt mannlaust en símaklefi með sjálfsala en ekkert klink með í för. Þegar hann hafði svo gengið nokkra stund í átt til Reykjavíkur sá hann bílljós og stillti sér á miðjan veginn í fljúgandi hálku með alvæpni. Séra Hanna María náði að stöðva bílinn án óhappa og þar með lauk hrakningum Kristófers, en prestsonurinn sem var með henni sagði áður en hann sofnaði um kvöldið: Mamma ég var svo hræddur, ég hélt að kallinn myndi skjóta okkur öll. Sigfinnur hafði hins vegar farið aðra leið og beið af sér versta veðrið og villtist aldrei að eigin sögn enda naut hann leiðsagnar Guðs sem hinn bróðirinn gerði ekki.

Fundurinn var í umsjón Alþjóðanefndar en formaður hennar er Hallgrímur Jónasson. Hann kynnti fyrirlesara fundarins sem var Einar Benediktsson frv. sendiherra en hann stundaði nám í Bandaríkjunum og vann fyrst hjá OEEC eða Efnahagssamvinnustofnun Evrópu áður en hann hóf störf í utanríkisþjónustunni. Þar var hann í tæpa fjóra áratugi og var m.a. sendiherra í París, London og Wasingthon auk þess sem hann var fastafulltrúi hjá Nato. Einar hlaut stórriddarakross hinnar íslensku fálkaorðu og fjölda af orðum erlendis, sem hann sagði að hefðu ekki verið veittar sér heldur íslensku þjóðinni.

Einar fjallaði um varnar og öryggismál í ljósi breyttra aðstæðna í Evrópu og hagsmuni Íslands í breyttri heimsmynd.  Hann benti á að Ísland væri skuldugast allra OECD ríkja og raunar svo skuldugt að ekki væri gerlegt fyrir þjóðina að standa undir þeim skuldum nema með samningum um að fella hluta þeirra niður. Aðildarsamningi við ESB vildi hann ljúka og halda eins góðu sambandi og mögulegt væri við þær þjóðir sem þar væru enda taldi hann það nauðsynlegt vegna okkar efnahagsþrenginga. Benti hann á ummæli Angelu Merkel sem hann túlkaði þannig að þjóðverjar vildu taka vel á móti okkur í ESB. Hann lagði þó áherslu á að við ættum ekki að samþykkja hvaða samning sem væri.

Aðgerðir Rússa í Úkraínu vektu áhyggjur um að ástand heimsmála væri að fara áratugi aftur í tímann. 

Hann varaði sérstaklega við samskiptum við Kína og vildi að menn stigju mjög varlega til jarðar í samskiptum við þá en þeir sæktust mjög ákaft í auðlindir strandríkja um allan heim.