Fréttir

13.5.2014

Berklahælið á Vífilsstöðum og arfleifð þess

Helgi Sigurðsson

Rótarýfundurinn 13. maí var í umsjón Menningarmálanefndar en formaður hennar er Margrét María Sigurðardóttir. Fyrirlesari á fundinum var Helgi Sigurðsson félagi í klúbbnum og nefndi hann erindi sitt: Berklahælið á Vífilsstöðum og arfleifð þess. Þriggja mínútna erindi flutti Bergþór Halldórsson.

Í þriggja mínútna erindi sínu las Bergþór upp bréf frá Hrafni Harðarsyni félaga okkar, sem um þessar mundir dvelur við skriftir í Ventspils. Hann mætti á fund í Rótaryklúbbnum þar og segir hann frá þeim fundi í bréfinu. Hrafn ætlar að dveljast aðeins lengur í Ventspils og stefnir að því að stunda rótaryfundi þar eftir föngum.

Fundurinn var á vegum Menningarmálanefndar og kynnti formaður hennar Margrét María fyrirlesarann sem var Helgi Sigurðsson krabbameinslæknir félagi okkar í klúbbnum. Helgi nefndi erindi sitt: Berklahælið á Vífilsstöðum og arfleifð þess.

Nokkuð öruggar heimildir eru til um að berklar hafa hrjáð mannkynið í meira en þúsund ár og hafa verið til á Íslandi frá víkingaöld. Þeir urðu hins vegar ekki að faraldri fyrr en á nítjándu og tuttugustu öldinni. Mikið þéttbýli auðveldaði smit og á Íslandi þar sem mjög margir bjuggu oft þröngt sanan í köldu og röku húsnæði mynduðust líklega kjöraðstæður fyrir berklana. Hlutfallslega fleiri létust úr berklum í byrjun tuttugustu aldarinnar en úr krabbameini og hjartasjúkdómum samanlagt í dag og auk þess var þar oft um mun yngra fólk að ræða.

Framsýnir menn undir forystu Guðmundar Björnssonar héraðslæknis í Reykjavík og síðar landlæknis og félagar hans úr Oddfellowhreyfingunni hófu söfnun fyrir berklahæli á fyrsta áratug tuttugustu aldarinnar og stofnuðu Heilsuhælisfélagið. Tókst sú söfnun vel og með dyggri aðstoð ýmissa ekki síst íslendinga í Kanada var glæsileg bygging á Vífilstöðum vígð í sept. 1910. Ríkið yfirtók svo reksturinn með skuldum og eignum Heilsuhælisfélagsins í byrjun stríðsins.

Fram kom í máli Helga að honum sveið sú vanvirða sem opinberir aðilar sýndu svona stórmannlegum gjöfum eins og þeirri sem hér um ræðir en þar var um að ræða hús sem talað var um að gæti enst í þúsund ár en er nú mjög illa farið vegna lítils viðhalds þó vel hafi verið vandað til verka í upphafi. Því miður er þetta ekki eina dæmið um svona framgöngu opinberra aðila heldur er þetta frekar regla en undantekning. Bar Helgi þetta saman við það hvernig svíar stæðu að varðveislu eigna sem væru gefnar ríkinu og sagði muninn sláandi.

Hins vegar væri aðrir hlutir en efnislegir frá Vífilsstöðum, sem hefðu varðveist mun betur.

Á Vífilsstöðum náðist frábær árangur í því verkefni sem spítalinn átti að leysa sem var að ráða niðurlögum berklanna. Í þeirri starfsemi sköpuðust ýmsir vinnuferlar og aðferðir sem íslensk heilbrigðisþjónusta býr að enn þann dag í dag.