Fréttir

23.5.2014

Flugfélagið Atlanta

Hannes Hilmarsson

Rótarýfundurinn 20. maí var í umsjón ferðanefndar en formaður hennar er Bryndís Torfadóttir. Fyrirlesari dagsins var Hannes Hilmarsson, forstjóri Atlanta, sem sagði frá starfssemi félagsins. Þriggja mínútna erindi flutti Björgvin Skafti Vilhjálmsson. Hrafn Harðarson sagði frá Rótarýfundi í Ventspils í Lettlandi.


Þriggja mínútna erindi flutti Björgvin Vilhjálmsson. Hann sagði frá því að hann hefði farið að taka til í bílskúrnum. Í þeim kössum sem þá komu fram voru ýmsir fjársjóðir en þar rakst hann á ævintýri Munkhausens og las þar söguna um það þegar Munkhausen dró sjálfan sig og hestinn á hárinu upp úr feni, sem þeir höfðu lent í. Björgvin sagði að þá hefði sér fundist hann eiga tvífara hér uppi á Íslandi því aðferðirnar minntu mjög á ákveðinn frammámann í íslensku þjóðlífi. Síðan rakst hann á sögur úr Þorskastríðinu og eftir skamman lestur yfirgaf hann bílskúrinn með sitt dót og sótti ævisögu Guðmundar Kærnested og hélt lestrinum áfram. Guðmundur sagði að hlutverk sitt í Þorskastríðinu hefði verið að vernda þann eina fjársjóð sem íslendingar ættu sameiginlega sem væri fiskurinn á miðunum. Önnur tilvitnun í hann var að við hefðum unnið Þorskastríðið en töpuðum fyrir græðginni. Það kom greinilega fram að hvorki Guðmundur né Björgvin voru hrifnir af heimsins besta fiskveiðistjórnunarkerfi, sem er jú bara best fyrir suma. Björgvin endaði erindi sitt á telja upp fjölda atriða, sem hann var ekki sáttur við en ætlaði ekki að tala um núna og geta félagar hans í klúbbnum hlakkað til að heyra um þá hluti síðar.

Fundurinn var í umsjón ferðanefndar og kynnti formaður hennar Bryndís Torfadóttir fyrirlesarann Hannes Hilmarsson stærsta eiganda og forstjóra Air Atlanta.

Hannes lagði áherslu á að eigendurnir væru fjórir þó hann væri stærstur. Hvorki Atlanta né eigendurnir hafa tranað sér fram í fjölmiðlum á fyrstu árum þessara eigenda vegna þess að þeir vissu aldrei hve lengi félagið myndi lifa. Eftir sameiningu við Íslandsflug og kaup á Eimskip 2005 hófst mjög erfiður tími enda voru þær aðgerðir sennilega vanhugsaðar og í stíl við ýmislegt annað sem gert var í aðdraganda hrunsins. Flugfélögin sem sameinuðust voru mjög ólík með vélar frá mismunandi framleiðendum og skipafélag inn í reksturinn var ekki til að skerpa fókusinn.

Félagið tapaði um 100 milljónum US$ á árunum 2005-2008 en nú er reksturinn kominn í jafnvægi,en tiltölulega lítill hagnaður miðað við veltu sem er gífurlega mikil.

Air Atlanta er ekki hefðbundið flugfélag því þeir leigja út flugvélar sem er þá flogið undir merkjum og með flugnúmer frá öðrum flugfélögum. Starfsemi félagsins er fyrst og fremst í Saudi-Arabiu og er miðpunktur flugsins í Jedda. Nú á félagið 18 vélar, þar af 15 Boeing 747-400, 10 farþegavélar og 5 fyrir frakt.

Um 1200 manns vinna hjá félaginu og þar af 250 íslendingar og af þeim eru 100 hér í húsinu. Atlanta er 24 stærsta fyrirtæki Íslands og árið 2013 skilaði það 5 milljörðum inn í hagkerfið.

Meðfylgjandi er mynd af Hrafni og frú forseta í Rótaryklúbbnum í Ventspils eftir að þau höfðu afhent hvort öðru fána á fundi 14. maí