Málefni Sunnuhlíðar
Eiríkur Líndal
Rótarýfundurinn 8. apríl var í höndum Eiríks Líndal sem verið hefur fulltrúi klúbbsins í fulltrúaráði Sunnuhlíðar. Hann fór yfir málefni Sunnuhlíðar á síðasta ári. Til stóð að Eiríkur segði síðan frá rannsókn sem hann stóð að ásamt Jóni G. Stefánssyni geðlækni, á breyttum neysluvenjum íslendinga eftir tilkomu bjórsins 1989, en tíminn var á þrotum þegar umræðum um Sunnuhlíð lauk.
Eiríkur fór yfir það sem gerst hefur hjá Sunnuhlíð undanfarin ár. Félagið hafði stofnað til talsverðra skulda vegna undirbúnings á miklum byggingaframkvæmdum sem hætt var við vegna hrunsins.Það mál var leyst í samkomulagi við Kópavogsbæ og fyririrtækið Já-Verk sem yfirtók lóðirnar og útlagðan kostnað vegna hönnunar.
Hallinn vegna rekstrar hjúkrunarheimilisins var svo annað mál en hann hafði farið stöðugt vaxandi frá hruni og tók svo kipp á síðasta ári þannig að félagið sá sér ekki fært að reka heimilið áfram að óbreyttu. Leitað var allra hugsanlegra leiða til að leysa málið en þó allir sýndu velvilja þá komu ekki fram neinar tillögur til lausnar og yfirtók því ríkið reksturinn á heimilinu um áramót. Vandi Sunnuhlíðarsamtakanna var þó ekki þar með úr sögunni því á félaginu hvíla miklar skuldir en það á húsnæðið sem hjúkrunarheimilið er í en ríkið neitar að greiða leigu fyrir húsnæðið.
Í umræðum á eftir var bent á að það sem gerði erfitt að fá ríkið til að kaupa húsnæðið væri að það uppfyllti ekki nýjustu kröfur um aðbúnað á svona heimili en nú væri gert ráð fyrir 60 fm íbúð með fullbúnu eldhúsi fyrir hvern vistmann. Gallinn við það væri hins vegar sá að á sama tíma væri sífellt erfiðara að komast inn á heimilin og stór hluti vistmanna hefði ekki heilsu til að nýta sér þessi miklu þægindi þegar þeir loksins komast þar inn. Þarna, eins og stundum annars staðar í lífinu virðist raunveruleikinn ekki haga sér alveg í samræmi við áætlanir.