Emerald Express - Nýr fjarskiptastrengur til Íslands
Gísli Hjálmtýsson
Rótarýfundurinn 1. apríl var í umsjón Alþjóðanefndar en formaður hennar er Hallgrímur Jónasson. Fyrirlesari á fundinum var Dr. Gísli Hjálmtýsson og nefndi hann erindi sitt Emerald Express - Nýr fjarskiptastrengur til Íslands. Þriggja mínútna erindi flutti Sveinn Hjörtur Hjartarson.
Formaður ferðanefndar Bryndís Torfadóttir kvaddi sér hljóðs og skýrði frá hugmyndum ferðanefndar um að fara í ferðalag að Skógum og skoða m.a. fjarskiptasafnið sem þar er. Bryndís vildi kanna hvort félagar í klúbbnum myndu mótmæla þessum hugmyndum nefndarinnar sem ekki var raunin.
Þriggja mínútna erindi flutti Sveinn Hjörtur Hjartarson. Hann var nýkominn af fundi úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna um fiskverð. Þar ákveða nefndarmenn viðmiðunarverð á ýmsum fisktegundum. Sveinn var ekki alveg sáttur við hvernig verðið væri að þróast um þessar mundir en af þeim tegundum sem nefndin væri að fjalla um þá væri ýsan ein að hækka í verði og þá aðallega vegna samdráttar í aflamagni. Sérstaklega var mikil lækkun á þorskverði að valda erfiðleikum í greininni.
Fundurinn var í umsjón alþjóðanefndar og kynnti Hallgrímur Jónasson formaður hennar fyrirlesara fundarins Gísla Hjálmtýsson. Gísli var fæddur 1963 í Keflavík og stundaði nám í rafmagnsverkfræði við HÍ 1983-1985 en lauk svo MS prófi í tölvunarfræði frá Universiti of California 1992 og doktorsprófi 1995 frá sama skóla. Hann varð prófessor við Háskólann í Reykjavík 2001. Gísli á fyrirtækið Thule investment sem rekur fjárfestingarsjóði sem fjárfesta í nýjum og vaxandi fyrirtækjum en eitt þeirra er Emerald Networks.
Gísli skýrði frá áætlunum fyrirtækisins Emerald Express sem ætlar að leggja fjarskiptastreng milli Bandaríkjanna og Bretlands og að frá þeim streng yrði lagður annar strengur til Íslands.
Með tilkomu þess strengs telur Gísli að möguleikar Íslands til ýmis konar starfsemi tengdri gagnavinnslu muni aukast verulega og líklegt að mörg alþjóðleg stórfyrirtæki muni velja Ísland sem staðsetningu fyrir gagnaver sín. Samkvæmt þeirri kostnaðaráætlun sem unnið er eftir kostar tengingin til Íslands frá aðalstrengnum 45 m$ eða um 5,6 milljarða ISK. Nú er verið að leita eftir fjárfestum innanlands til að taka þátt í verkefninu.