Fréttir

25.3.2014

Rafmagnssæstrengur milli Íslands og Bretlands

Valdimar K. Jónsson, prófessor emeritus

Rótarýfundurinn 25. mars var í umsjón Þjóðmálanefndar en formaður hennar er Hrafn A. Harðarson. Fyrirlesari á fundinum var Valdimar K. Jónsson professor emeritus og nefndi hann erindi sitt Rafmagnssæstrengur milli Íslands og Bretlands.  Þriggja mínútna erindi flutti Helgi Ólafsson.

Í þriggja mínútna erindi sínu sagði Helgi frá nýlegri ferð sinni til Varsjár og að hann hefði reynt í því tilefni að kynna sér nánar sögu Póllands, en örlög Pólverja hafa einkennst af yfirgangi voldugra nágranna sem oft hafa fært landamærin bæði að austan og vestan.

Í Varsjá heimsótti hann safn, sem var gert sérstaklega til minningar um uppreisnina 1944 en í framhaldi af henni réðust þjóðverjar af slíku offorsi á menn og mannvirki í Varsjá að innan við þúsund manns höfðust þar við í lok stríðsins en 1,5 milljónir höfðu búið þar áður. Nánast allar byggingar voru eyðilagðar en pólverjar endurreistu miðborg Varsjár í sinni fyrri mynd. Helgi hvatti menn til að kynna sér þessa sögu ekki síst vegna þess hve margir Pólverjar eru nú búsettir á Íslandi en tæplega helmingur allra erlendra ríkisborgara á Íslandi eru Pólverjar.

Fundurinn var í umsjón Þjóðmálanefndar og kynnti Friðbert Pálsson fyrirlesarann Valdimar K. Jónsson prófessor emeritus. Valdimar er fæddur í Hnífsdal og ættaður af Hornströndum. Hann stundaði verkfræðinám í Danmörku og Bandaríkjunum og starfaði í Danmörku, Bretlandi og Bandaríkjunum áður en hann varð prófessor við verkfræðideild HÍ en strax á fyrsta ári þar fékk hann það verkefni að stjórna hraunkælingu í Vestmanneyjum í gosinu þar en kollegi hans í HÍ átti hugmyndina að þeirri aðferð sem þar var beitt.

Valdimar nefndi erindi sitt: Sæstrengur til raforkuflutnings milli Íslands og Bretlands.

Hann sagði að oft hefðu verið gerðar athuganir á hagkvæmni á sæstreng til að flytja út raforku en niðurstaðan alltaf verið neikvæð. Nú hefði hins vegar forstjóri Landsvirkjunar sett fram þá skoðun að nú væru breyttir tímar að þessu leiti og líklega gæti þetta verið álitlegur kostur.

Valdimar var þessu ekki sammála eða taldi allt of mikla óvissuþætti í verkefninu til að verjandi væri að fara af stað með svona stórt verkefni. Hann benti á að þetta væri fyrsti rafstrengurinn yfir úthaf og hann væri tvöfalt lengri en lengsti strengur sem nú væri í notkun í Evrópu. Hann fullyrti að ekki hefðu verið gerðir fullkomnir útreikningar á stofn- og rekstrarkostnaði svona strengs og ljóst væri að til að eitthvert vit væri í verkefninu þá þyrfti að selja orkuna á a.m.k. €150 pr MWst, sem fæst aldrei nema verulegur hluti verðsins sé álag vegna grænnar orku. Því væri nauðsynlegt að hafa samninga til langs tíma sem tryggðu að slíkt álag lækkaði ekki eða hyrfi hvorki vegna aukins framboðs af grænni orku í Evrópu né vegna hugsanlegra minni tengsla Íslands við Evrópu í framtíðinni.