Kópavogshælið og Kópavogstún
Þorleifur Friðriksson, sagnfræðingur
Rótarýfundurinn 18. mars var í umsjón Menningarmálanefndar en formaður hennar er Margrét María Sigurðardóttir. Þorleifur Friðriksson sagnfræðingur og innfæddur Kópavogsbúi var fyrirlesari dagsins og fjallaði hann um sögu Kópavogshælisins og Kópavogstúnið.
Margrét María kynnti fyrirlesara dagsins Þorleif Friðriksson sagnfræðing, sem áður hefur komið á fundi klúbbsins til að kynna utanlandsferðir og var auk þess fararstjóri í ferð á vegum klúbbsins til Berlínar og Póllands fyrir tveimur árum.
Þorleifur talaði í sínum fyrirlestri um Kópavogstúnið og þó sérstaklega Kópavogshælið sem þar er en kom þó víðar við og ræddi meðal annars um þéttbýlisþróun og sjúkdóma.
Árið 1904 var félagið Hringurinn stofnað og var markmið félagsins að liðsinna þeim sem væru efnalitlir og ættu í veikindum. Tveimur árum síðar var ákveðið að snúa sér að því að hjálpa berklasjúklingum. Vegna smitleiða þá voru berklar þéttbýlissjúkdómur og jukust mjög ört á höfuðborgarsvæðinu í byrjun aldarinnar. Vífilsstaðaspítali var tekinn í notkun 1910 en þar urðu sjúklingar fljótt mun fleiri en gert var ráð fyrir í upphafi. Því ákváðu Hringskonur að reisa hús sem yrði hressingarhæli fyrir berklasjúklinga og fengu lóð á Kópavogstúni nánast á þeim stað þar sem þingstaðurinn var til forna. Guðjón Samúelsson var fenginn til að teikna og húsið var tekið í notkun 1926 og þá höfðu konurnar safnað fyrir tveim þriðju af kostnaði við húsið. Hringskonur ráku svo bú á Kópavogsjörðinni og fór arður af þeirri starfsemi í barnaspítasasjóð Hringsins eftir að lokið var við fjármögnun hælisins.
Eftir að Reykjalundur tók við hlutverki hressingarhælisins var húsnæðið notað sem holdsveikrahæli og síðan fávitahæli og síðast fyrir Þroskaþjálfaskólann en var í niðurníðslu í yfir 20 ár. Árið 2010 óskaði Kópavogsbær eftir því að Gamli Kópavogsbærinn og Kópavogshælið yrðu friðuð og nú er búið að lagfæra húsin þannig að þau eru ekki lengur til skammar.
Þorleifur minntist síðan á stofnun Sunnuhlíðar en það verkefni hófst á svipaðan hátt og hitt þ.e.a.s. með söfnun á peningum meðal fólks sem hafði nánast ekkert aflögu.
Helgi Sigurðsson bætti síðan við talsverðum fróðleik, sem hann hafði m.a.vegna þess að afi hans var læknir á Vífilsstöðum og á Kópavogshælinu en lauk máli sínu með þeim orðum að "Íslenskir miðaldra karlmenn hafa alltaf staðið heilbrigðiskerfinu fyrir þrifum" sem er líklega holl áminning fyrir okkur sem tilheyrum þeim hópi, eftir að hafa heyrt hvernig Hringskonur hafa staðið sig.