Fréttir

17.3.2014

Góður árangur íþróttafólks í Kópavogi

Una María Óskarsdóttir, formaður íþróttaráðs

Rótarýfundurinn 11. mars var í umsjón Ungmennanefndar en formaður hennar er Guðbergur Rúnarsson. Fyrirlesari dagsins var Una María Óskarsdóttir, formaður íþróttaráðs og fjallaði hún um góðan árangur íþróttafólks í Kópavogi. Þriggja mínútna erindi flutti Magnús Már Harðarson.

Magnús Már Harðarson nefndi 3ja mínútna erindi sitt Eftirminnilegur dagur 17. júní 1959. Þann dag gerði mikið norðanáhlaup en Magnús sem þá var þrettán ára var í sölutjaldi í miðbæ Reykjavíkur að selja pylsur en vegna kulda varð hann að vera í lopavettlingum við starf sitt.

Þennan sama dag flaug nýleg skrúfuþota Flugfélagsins til Osló full af prúðbúnu fólki á 15 ára afmæli lýðveldisins en á leiðinni hafði einn þekktur maður úr íslensku viðskiptalífi neytt fullmikilla veitinga og vildi á miðri leið taka yfir stjórn vélarinnar. Þegar flugmenn gáfu ekki sitt starf eftir með góðu greip hann exi sem þar var og hugðist fá vilja sínum framgengt en fékk þá kjaftshögg frá flugstjóranum, sem stöðvaði þetta flugrán í fæðingu.

Flugstjórinn hafði nefnilega æft box hjá Guðmundi Arasyni járnsmið, sem var áður félagi í Rótaryklúbbi Kópavogs.


Fundurinn var í umsjón Ungmennanefndar og kynnti formaður hennar fyrirlesarann Unu Maríu Óskarsdóttur. Una María er alin upp í Þingeyjasýslu en var stúdent frá Menntaskólanum í Hamrahlíð og lauk BA prófi frá Félagsvísindadeild Háskóla Íslands og á síðasta ári lauk hún meistaranámi í lýðheilsuvísindum frá Læknadeild Háskóla Íslands.Hún hefur starfað á vegum íþróttahreyfingarinnar og í ráðuneytum bæði sem sérfræðingur og aðstoðarmaður ráðherra auk þess sem hún hefur verið í fjölda nefnda á vegum Framsóknarflokksins, Kópavogsbæjar og íþróttafélaga svo eitthvað sé nefnt en nú er hún formaður íþróttaráðs Kópavogs. 

Erindi sitt nefndi hún:Árangur íþróttastarfs í Kópavogi. Hverjir eru lykilþættir í starfinu sem skilað hafa svo góðum árangri? 

Hún nefndi nokkur atriði sem hún taldi aðalástæður þess hve vel hefði tekist til í íþróttamálum og nefndi fyrst að um langt skeið hefði verið breið samstaða um það í yfirstjórn bæjarins að leggja áherslu á þennan málaflokk og rakti það aftur til tíma Sigurðar Geirdal sem bæjarstjóra enda hefði hann verið fyrrverandi afreksmaður í íþróttum.

Mjög kröfug uppbygging íþróttamannvirkja væri staðreynd: tvær fjölnota íþróttahallir, níu íþróttahús, tvær glæsilegar sundlaugar og fullkominn íþróttavöllur auk golfvallar í samstarfi við Garðabæ.

Hún sagði líka að lítil yfirbygging í stjórkerfi málaflokksins, þar sem stutt væri milli manna hjálpaði mikið til. Mjög viðamikið styrkjakerfi er í gangi í íþróttastarfinu bæði til afreksmanna, íþróttafélaga en ekki síst til yngri iðkenda og minnti hún á að Kópavogur hefði verið fyrsta sveitarfélagið sem valdi bæði íþróttakarl og íþróttakonu ársins.