Fréttir

25.2.2014

Þjónusta við leit og vinnslu jarðefnaeldsneytis - Norðurslóðasiglingar

Kristinn Pétursson, f.v. alþingismaður og fiskverkandi á Bakkafirði

Rótarýfundurinn 25. febrúar var í umsjón Starfsþjónustunefndar. Formaður hennar er Sigbjörn Jónsson. Fyrirlesari fundarins, Kristinn Pétursson fyrrverandi alþingismaður og fiskverkandi á Bakkafirði, nefndi erindi sitt:  Þjónusta við leit / vinnslu jarðefnaeldsneytis - Norðurslóðasiglingar.

Þriggja mínútna erindi flutti Ólafur Ragnarsson.

Í upphafi fundar greindi forseti frá því að kvöldið áður hefði verið haldinn stjórnarfundur þar sem rætt var um fjölgun í klúbbnum en meðalaldurinn nú er rétt innan við 68 ár. Sérstaklega þyrftum við að líta til ákveðinna starfsstétta svo sem í mennta- og heilbrigðiskerfinu og jafnvel íþróttahreyfingunni. 

Þriggja mínútna erindi flutti Ólafur H. Ragnarsson. Hann sagði að hrunið og það sem kom fram í búsáhaldabyltingunni væri að mestu fullrætt en þó ætlaði hann að minnast á tvö atriði því tengd en það væri réttur manna til þjóðaratkvæðagreiðslu og fullveldi þjóðar. 

Hann sagði að þjóðaratkvæðagreiðsla væri einskonar uppbót á almennan atkvæðisrétt sem menn gætu almennt beitt á fjögurra ára fresti. Hann fór yfir þær atkvæðagreiðslur sem hér hafa verið haldnar en þær voru þrjár frá 1908 - 1918 og álíka margar þau tæp 100 ár sem síðan eru liðin. Sviss væri raunverulega eina lýðræðisríkið sem notaði þjóðaratkvæðagreiðslur að einhverju marki en hann dró í efa að þar skiluðu þær alltaf niðurstöðu sem væri í samræmi við þjóðarvilja. Varðandi fullveldið benti hann á að nú þegar hefðum við afsalað okkur ákveðnum hlutum af löggjafavaldinu með EES samningnum.


Fundurinn var í umsjón Starfsþjónustunefndar og kynnti Guðmundur Lýðsson fyrirlesarann Kristinn Pétursson. Hann sagði Kristinn vera gamlan félaga sinn úr grásleppunni fyrr á árum, en Kristinn er fæddur á Bakkafirði 1952. Hann er vélfræðingur frá Vélskóla Íslands og tók síðar stjórnendanám við Háskólann. Lengst af hefur hann þó verið útgerðarmaður og fiskverkandi á Bakkafirði.

Kristinn hefur lengi verið mikill áhugamaður um uppbyggingu á hafnaraðstöðu á norðausturhorni landsins til að sinna væntanlegum siglingaleiðum yfir pólsvæðið og annast þjónustustarfsemi við olíuvinnslu á Drekasvæðinu sunnan við Jan Mayen. Hann sýndi uppdrátt af áætlunum um miklar framkvæmdir við hafnarmannvirki í Finnafirði sem raunar voru miklu eldri en þær áætlanir sem nú eru á döfinnu um olíuvinnslu. Sú uppbygging á risahöfn þar hefur verið lögð til hliðar í bili.

Kristinn er stjórnarformaður fyrirtækisins Navitas sem nú er í samstarfi við norskt fyrirtæki Norsea Group sem er eitt stærsta þjónustufyrirtæki olíuleitar í Norður-Atlanshafi. Fulltrúar þeirra aðila hafa komið og skoðað 12 hafnir á svæðinu frá Reyðarfirði til Siglufjarðar og var niðurstaða þeirra að velja Vopnafjörð til að byggja upp þjónustu við leitarborun þar. Norsea rekur nú 9 hafnir í Noregi sem þjónusta olíuleit og vinnslu og voru sýndar myndir frá nokkrum þeirra.

Kristinn var ekki ánægður með þá frammistöðu íslendinga að hafa ekki komið islenskum höfnum meira að til að þjónusta fyrirtæki á Grænlandi sem vinna við leit að jarðefnaeldsneyti og málmum. Þeirri þjónusta væri nú aðallega sinnt frá Aberdeen.