Fréttir

18.2.2014

Stjórnmálin

Vigdís Hauksdóttir, alþingismaður

Rótarýfundurinn 18. febrúar var í umsjón Þjóðmálanefndar. Formaður hennar er Hrafn Harðarson. Fyrirlesari á fundinum var Vigdís Hauksdóttir alþingismaður og ræddi um stjórnmálin nú um stundir. Þriggja mínútna erindi flutti Karl M. Kristjánsson.

Í þriggja mínútna erindi sínu ræddi Karl um myglu og þá fyrst og fremst myglu í húsum, sem hann sagði mikið og vaxandi vandamál. Mygla kemur fram þar sem raki myndast og loftræsting er léleg og oft er því þannig háttað í þökum nýlegra húsa í dag. Fólk er misviðkvæmt fyrir myglu í húsakynnum sínum. Hann upplýsti okkur um að af myglu væru margar tegundir hver annarri ógeðslegri og sagði hann svartmyglu þeirra versta, baneitraða, en einnig léki grunur á að mygla gæti valdið krabbameini. Að lokum kom fram hjá honum að eftir að hann hafði fundið til slappleika í vinnunni kom í ljós að hans skrifstofa var slæmt dæmi um þennan vágest.

Fundurinn var í umsjón Þjóðmálanefndar og kynnti Geir Guðsteinsson fyrirlesarann Vigdísi Hauksdóttur.

Vigdís er fædd og uppalin á Stóru-Reykjum í Hraungerðishreppi. Hún var garðyrkjufræðingur frá Garðyrkjuskóla ríkisins 1984 og stundaði eftir það blómaskreytingar og rekstur blómabúða í tæpa tvo áratugi. Hún lauk síðan lögfræðiprófi frá Bifröst 2008 og var lögfræðingur hjá Alþýðusambandi Íslands þar til hún var kjörin á þing 2009.

Vigdís hóf mál sitt með því að segja að kvöldið áður hefði þingmönnum stjórnarflokkana verið kynnt í trúnaði skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um stöðu umsóknar Íslands um inngöngu í Evrópusambandið og þróunina innan sambandsins. Hún sagði að þó að trúnaður hefði ríkt þá væri sá tími liðinn akkúrat þegar okkar fundur hófst. Í ljós kom að vísu að skýrslunni var lekið í fjölmiðla strax kvöldið áður. En í stuttu máli sagði Vigdís að þessi skýrsla staðfesti allt sem hún og hennar félagar hafa sagt um þetta mál.

Síðan ræddi hún nokkuð um starf sitt sem formaður fjárveitinganefndar og sagði að þó að starfið hefði verið erfitt þá þyrfti að ganga miklu lengra í niðurskurði fjárveitinga á ýmsum sviðum, en nú væri fjárveitinganefnd aðallega í sínu eftirlitshlutverki með því hvernig fjármagninu reiddi af.

Hún tók sem dæmi hjúkrunarheimilin, þar sem hún sagði að væri sláandi munur á hvernig sum heimilin væru rekin innan fjárlagaheimilda en önnur færu langt umfram heimildir. Sömu sögu væri hægt að segja á mörgum öðrum sviðum og taldi Vigdís að ýmsir aðilar hefðu ekki sætt sig við stjórnarskiptin á síðasta ári og færu framúr heimildum til að gera stjórnvöldum erfitt fyrir.

Þá nefndi hún að fyrri ríkisstjórn hefði sóað fjármunum á ýmsum sviðum og nefndi sérstaklega mikinn kostnað við ólöglegt Stjórnlagaráð og Vaðlaheiðargöng voru nefnd sem dæmi um ónauðsynlega framkvæmd, sem kjördæmapot hefði stuðlað að.