Ferðaþjónusta á fleygiferð
Jón Ásbergssn, framkvæmdastjóri Íslandsstofu
Rótarýfundurinn 11. febrúar var í umsjón Alþjóðanefndar, en formaður hennar er Hallgrímur Jónasson. Fyrirlesari á fundinum var Jón Ásbergsson framkvæmdastjóri Íslandsstofu og kallaði hann erindi sitt Ferðaþjónusta á fleygiferð. Þriggja mínútna erindi flutti Jón Emilsson.
Í þriggja mínútna erindi sínu gerði Jón Emilsson grein fyrir skráveifu sem hann taldi að Elli kerling hefði gert sér. Hann hafði í sumar útvegað sér dag í veiði í Hvítá hjá Iðu sem hann, kona hans og sonur ætluðu að nýta sér. Um svipað leiti kom hann sér upp dagbók þar sem skilmerkilega var skráð allt sem hann nauðsynlega þyrfti að muna.
Einn daginn kl. hálf níu þegar hann og sonur hans voru í vinnunni var hringt í hann og honum bent á að hann hefði átt að byrja að veiða kl. sjö þá um morguninn. Fjölskyldan dreif sig af stað og veiddi vel, eina 7 laxa, þó að tíminn hefði styttst aðeins, en lærdómurinn af þessu var sá að ef maður ætlar að nota dagbók þá er skilyrði að skrá rétt í hana.,
Fundurinn var í umsjón Alþjóðanefndar og kynnti Jón Sigurðsson fyrirlesarann Jón Ásbergsson framkvæmdastjóra Íslandsstofu. Jón var fæddur á Ísafirði og hafði áður en hann kom til Íslandsstofu m.a. verið framkvæmdastjóri Hagkaups og síðar Útflutningsráðs.
Jón, sem er Rótaryfélagi, sagði frá því í upphafi máls síns að hann færi oft á rótaryfundi erlendis þegar hann væri á ferðalögum og nefndi bæði Murmansk og Mubai í því sambandi. Erindi sinn kallaði hann "Ferðaþjónusta á fleygiferð"
Íslandsstofa var stofnuð 2010 og tók þá við verkefnum Útflutningsráðs auk margra annarra verkefna. Markmið Íslandsstofu er að efla ímynd og orðspor Íslands, styrkja samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs á erlendum mörkuðum og laða erlenda ferðamenn og fjárfestingu til landsins.
Fjöldi erlendra ferðamanna sem koma til landsins hefur vaxið síðustu ár langt umfram væntingar og einnig tekjur af erlendum ferðamönnum þó tekjur af hverjum ferðamanni hafi dregist eitthvað saman. Íslandsstofa hefur lagt áherslu á í sínum kynningum að hafa samband við fjölmiðlamenn erlendis og skipuleggja kynningar fyrir þá aðila. Marksvæði fyrir slíkar kynningar er þau lönd sem flogið er til í beinu flugi allt árið og taldi Jón að slíkar kynningar hefðu skilað miklum árangri.
Ísland allt árið er einnig verkefni sem er í gangi og snýst um að reyna að jafna fjölda ferðamanna yfir árið.
Ýmislegt bendir til að ef ferðamannastraumurinn heldur áfram að aukast þá fari hann yfir þolmörk bæði hjá náttúrunni og íbúum landsins nema gripið verði til ráðstafana. Þá benti Jón á að ferðamenn á skemmtiferðaskipum sem oft væru mörg í höfn á sama tíma eyðilegðu stundum upplifun fyrir öðrum ferðamönnum en þeir ferðamenn skilja lítið eftir í landinu, ef hafnargjöld eru frátalin. Að lokum minnti hann á miklar tekjur, sem kæmu inn í landið vegna erlendra kvikmynda.