Dómtúlkun
Ellen Ingvadóttir, fyrrverandi umdæmisstjóri
Þriggja mínútna erindi flutti Helgi Laxdal. Hann talaði um kynjakvóta sem hann sagðist vera mjög fylglandi og vildi ekki gefa neinar undanþágur þó um lítil fyrirtæki væri að ræða. Hann taldi að nú þegar hefði það sýnt sig að betri árangur hefði náðst þar sem konum í stjórnum hefði verið fjölgað. Vildi hann að unnið væri í því að fjölga konum til sjós og taldi að það myndi bæta menninguna um borð í skipum m.a. nefndi hann að þar sem konur væru í áhöfn kæmu menn uppstrílaðir í matinn.
Fundurinn var í umsjón Rótaryfræðslunefndar og kynnti formaðurinn Jón Emilsson fyrirlesarann Ellen Ingvadóttur. Ellen er félagi í Rótaryklúbbi Reykjavík-Miðborg og hún var fyrsta konan í embætti Umdæmisstjóra Rótary á Íslandi og á nú sæti á löggjafaþingi Rótary International. Hún rekur fyrirtæki sem sérhæfir sig í skjalaþýðingum og dómtúlkun og hefur hún aflað sér allra hugsanlegra réttinda á því sviði.
Ellen hóf mál sitt á að nefna að það væri bæði sérstakt og ánægjulegt að fyrsti klúbburinn sem hún heimsækti eftir að valnefnd sem hún væri í forsvari fyrir hefði lokið störfum væri einmitt klúbbur þess sem valnefndin hefði valið sem verðandi umdæmisstjóra.
Ellen nefndi erindi sittDómtúlkun-vaxandi þörf og kröfur til dómtúlka og var byggt á námsefni sem hún notaði við kennslu verðandi dómtúlka. Hún nefndi það að fyrsti íslenski dómtúlkurinn hefði verið Hilmar Foss sem hefði verið nokkurs konar mentor í faginu en hann lést fyrir tveimur árum 92 ára og vann við fagið fram á yfir nírætt.
Ellen fór yfir ýmis atriði sem snéru m.a. að starfsvettvangi, hlutverki og hæfniskröfum dómtúlka. Þar kom fram að verkefni dómtúlka hafa aukist mjög mikið undanfarið ekki síst vegna mikillar fjölgunar erlendra íbúa í landinu sem koma af mörgum mismunandi málsvæðum. Dómtúlkar þyrftu jöfnum höndum að þýða fyrir menn sem töluðu yfirstéttarmál og götumál og nefndi hún sérstaklega hvað hún hefði komið sjálfri sér á óvart með kunnáttu sinni í því síðarnefnda.
Til að sýna erfiðleika sem geta komið upp í þýðingum þá nefndi hún þekkt dæmi úr samskiptum úr stjórnkerfum íslendinga og breta þegar understatement úr bresku yfirstéttarmáli olli misskilningi þó allir aðilar væru fullfærir í málinu.