Fréttir

27.1.2014

Víg Kambans

Gísli Tryggvason, lögmaður og Rótarýfélagi

Rótarýfundurinn 28. janúar var í umsjón Laganefndar en formaður hennar er Gísli Tryggvason. Gísli flutti sjálfur erindi á fundinum og nefndi það  Víg Kambans. Þriggja mínútna erindi flutti Margrét María Sigurðardóttir.


Í 3ja mínútna erindi sínu talaði Margrét María um tímann og hvert hann fer og hvernig hann hagaði sér yfirleitt. Hún er í starfi sem ráðið er í til fimm ára og einu sinni möguleiki á endurráðningu. Fyrst í stað hugsaði hún hvort hún myndi halda út í fimm ár en núna þegar þrjú ár eru eftir af síðara tímabilinu snýst hugsunin meira um hvort og hvernig hún geti lokið þeim verkefnum sem henni finnast mikilvæg.

Fundurinn var í umsjón Laganefndar og hélt Gísli Tryggvason formaður nefndarinnar erindi sem hann nefndi Víg Kambans. Í kjölfar útgáfu bókar um ævi Kambans hefur víða komið upp umræða um hann og þá ekki síst um þá atburði sem urðu við dauða hans. Raunar má fullyrða að Kamban hafi ekki notið sannmælis sem rithöfundur í þau 70 ár sem liðin eru frá dauða hans vegna vegna þess orðróms sem alltaf vofði yfir að hann hefði verið hallur undir málstað nasista í stríðinu.

Nú þegar vakin hefur verið athygli á sögu hans og fjölmiðlar opnir fyrir athugasemdir hafa komið fram alls konar palladómar sem Gísli sagðist stundum hafa reynt að svara. Hann taldi ótækt að tala um aftöku eða morð í þessu sambandi og notaði því orðið víg sem tiltölulega hlutlaust orð.

Óumdeilt er að Kamban stundaði ritstörf fyrir þjóðverja og fékk greitt fyrir þó að ekkert bendi til þess að í þeim skrifum hafi komið fram skoðun hans á heimspólitík. Gísli taldi handtöku hans ekki óeðlilega og sennilega mætti flokka skotið sem banaði honum sem slys.

Í umræðu á eftir erindi Gísla kom meðal annars fram það sjónarmið að í andspyrnuhreyfingum sem störfuðu í Danmörku eins og í mörgum öðrum löndum Evrópu hefðu ekki einungis verið hugsjónamenn heldur einnig hálfgerðir glæpamenn og því hætta á að ýmislegt gerðist sem ekki væri í þágu hreyfinganna. Á það var líka bent að ýmislegt sem gert var eftir heimstyrjöldina hefði rist jafn djúp eða dýpri sár í þjóðarsál ýmissa hópa en styrjöldin sjálf. En sárindi vegna slíkra misgerða blossuðu upp í styrjöldunum í gömlu Júgóslavíu fyrir tveim áratugum og eru jafnvel að koma upp á yfirborðið núna í Úkraínu.