Fréttir

21.1.2014

Jarðhitaskóli Háskóla Sameinuðu Þjóðanna

Ingvar Birgir Friðleifsson


Rótarýfundurinn 21. janúar var í umsjón Menningarmálanefndar en formaður hennar er Margrét María Sigurðardóttir. Fyrirlesari á fundinum var Ingvar Birgir Friðleifsson f.v. skólastjóri Jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu Þjóðanna á Íslandi og hélt hann erindi um starfsemi skólans. Þriggja mínútna erindi flutti Ólafur Tómasson. Nýr félagi, Kristinn Dagur Gissurarson, var tekinn inn í klúbbinn. Starfsgrein: Steypustöðvar


Nýr félagi var tekinn inn í klúbbinn, Kristinn Dagur Gissurarson viðskiptafræðingur. Guðmundur Þorvarðarson formaður Klúbbþjónustunefndar kynnti Kristin Dag, en hann hefur átt heima í Kópavogi frá 12 ára aldri og var faðir hans áður félagi í klúbbnum. Kristinn er framkvæmdastjóri Steypustöðvarinnar Grásteins. Sambýliskona hans er Birtna Björnsdóttir.

Kristinn Dagur stendur hér á milli Jóns Ögmundssonar, forseta klúbbsins og Guðmundar Jens Þorvarðarsonar, formanns klúbbþjónustunefndar.

Sigrún Sigurðardóttir flutti kveðjur frá Rótaryklúbbnum Borgum og sagði m.a. að þar væru skipaðir litlir hópar sem hefðu það sem verkefni að heimsækja aðra rótaryklúbba.

Þriggja mínútna erindi flutti Ólafur Tómasson, fyrrverandi póst- og símamálastjóri. Sagði hann frá því að Pekka kollegi hans í Finnlandi hefði oft talað um það við sig að koma og vera með sér í sumarbústað sem hann átti. Ólafur hafði hins vegar ekki gefið sér tíma til þess fyrr en Pekka endurtók boðið eftir að Ólafur var hættur að vinna. Hann og Stefanía dvöldu þá með tvennum öðrum hjónum í viku í góðu yfirlæti í bjálkahúsi í finnskum skógi þar sem maturinn var eldaður úti yfir opnum eldi eða reyksoðinn. Ekki treysti hann sér samt til að taka upp alla finnsku siðina, því þegar saunabaði þeirra félaganna lauk hlupu finnarnir allsberir 100 m niður að ísköldu stöðuvatni og skelltu sér útí, en Ólafur sat eftir og fékk sér einn bjór til viðbótar.

Fundurinn var í umsjón menningarmálanefndar og kynnti Ingólfur Antonsson fyrirlesara dagsins. Ingvar Birgir Friðleifsson er alinn upp í Hafnarfirði og lauk stúdentsprófi frá MR 1966. Hann stundaði nám í jarðfræði við St. Andrews háskóla í Skotlandi og Oxford í Englandi og lauk doktorsprófi frá þeim síðarnefnda 1973. Ingvar hefur verið forstöðumaður Jarðhitaskólans frá upphafi þar til í okt. sl.ár auk þess sem hann hefur gengt mörgum störfum á alþjóðlegum vettvangi. Ingvar er kvæntur Þórdísi Árnadóttur, sem var skrifstofustjóri Rótaryumdæmisins um árabil og eiga þau þrjár dætur. 

Háskóli Sameinuðu Þjóðanna var stofnaður 1975 og strax í upphafi buðu íslendingar upp á að setja hér á stofn jarðhitaskóla og sjávarútvegsskóla og tók jarðhitaskólinn til starfa 1978 en sjávarútvegsskólinn tuttugu árum síðar. Nú eru einnig reknir hérlendis Landgræðsluskólinn og Alþjóðlegi Jafnréttiskólinn undir merkjum Háskóla Sameinuðu Þjóðanna. Umtalsverður hluti af framlögum Íslands til þróunarmála fer núna til þessarar starfsemi.

Við jarðhitaskólann sem Orkustofnun hýsir eru níu námsbrautir og eru nemendur valdir inn í skólann með einkaviðtölum við væntanlega nemendur í þeirra heimalöndum, sem kostar mikil ferðalög fyrir starfsmenn skólans. Nú hafa 554 einstaklingar frá 53 löndum lokið hefðbundinni sex mánuða þjálfun við skólann. Nokkur fjöldi hefur einnig lokið M:Sc námi frá Háskóla Íslands með stuðningi Jarðhitaskólans og á síðasta ári varði fyrsti aðilinn stúlka frá Kenía doktorsritgerð sína þar.

Auk þessa hefur skólinn staðið fyrir árlegum jarðhitanámskeiðum í Kenía, El Salvador og Kína sem ætluð eru fólki í þeim heimshlutum. Ekki leikur neinn vafi á því að Jarðhitaskólinn hefur auðveldað íslenskum verkfræðistofum að afla sér verkefna við jarðhitarannsóknir og uppbyggingu orkuvera í þróunarlöndum.