Fréttir

14.1.2014

Ör-ískristallatækni

Rótarýfundurinn 14. janúar var í umsjón Starfsþjónustunefndar en formaður hennar er Sigbjörn Jónsson. Fyrirlesari á fundinum var Snæbjörn Tr. Guðnason sem er framkvæmdastjóri Ískjarna ehf. Snæbjörn er hönnuður á sviði Ör-ískristallatækni sem er ný tækni sem notuð er í matvælaiðnaði og mun erindi hans fjalla um þróun og nýjungar á því sviði. Þriggja mínútna erindi flutti Vilhjálmur Einarsson.

Þetta var fyrsti fundur klúbbsins á nýjum stað og hóf forseti fundinn með því að óska félögum til hamingju með að vera komnir í þennan sal í Atlantahúsinu að Hlíðasmára 3, sem vonandi yrði okkar fundarstaður til framtíðar og fór stuttlega yfir það sem olli því að við erum nú komin með fundarhald okkar í annað húsnæði.

Forseti sagði síðan frá því að Björn Bjarndal umdæmisstjóri hefði haft samband við sig daginn áður og tjáð sér að nefnd um val á nýjum umdæmisstjóra hefði komist að niðurstöðu um að velja Guðmund Jens Þorvarðarson sem umdæmisstjóra svæðis 1360 fyrir tímabilið 2016 - 2017 og las bréf frá honum þarað lútandi, sem sent var á alla rótaryklúbba. Þar kom fram að klúbbarnir hefðu frest til 1. mars til að hreyfa andmælum. Formleg tilnefning umdæmisstjóra fer síðan fram á umdæmisþingi í haust. 

Guðmundur þakkaði það traust sem honum var sýnt og sagðist treysta því að félagar í Rótaryklúbbi Kópavogs stæðu þétt við hlið sér við komandi verkefni.

Forseti greindi síðan frá því að fyrir jólin hefði hann verið viðstaddur útskrift stúdenta úr Menntaskólanum í Kópavogi þar sem hann fyrir hönd klúbbsins veitti Sindra Birgissyni verðlaun fyrir besta námsárangur í raungreinum. Fékk hann viðurkenningaskjal og 60.000 kr. frá klúbbnum.

Þriggja mínútna erindi flutti Vilhjálmur Einarsson. Vilhjálmur á sæti í Skipulagsnefnd í Kópavogi og sagði frá tveimur málum sem hafa tekið drjúgan tíma nefndarinnar á kjörtímabilinu.

Fyrra málið var um Gustssvæðið en endanleg tillaga Skipulagsnefndar um nýtingu svæðisins verður til aðgreiðslu í bæjarstjórn í dag kl. 16.00. Þar er gert ráð fyrir 300 íbúðum í 10 húsum og er raunverulega hægt að úthluta lóðum undir 8 af þessum 10 húsum strax. Tveim síðustu lóðunum verður ekki úthlutað fyrr en Áhaldahúsi bæjarins hefur verið fundinn nýr samastaður.

Síðara málið sem var talsvert annars eðlis sneri að svæðinu á Vatnsenda en þar gerði Kópavogsbær fyrir mörgum árum samning við "eiganda" Vatnsendajarðarinnar um uppbyggingu svæðisins sem á þeim tíma virtist nokkuð góður. Síðan hafa dómstólar komist að þeirri niðurstöðu að viðkomandi aðili var alls ekki eigandi jarðarinnar og hefur aldrei verið þó hann hafi verið talinn eigandi í tæp 50 ár. Sú niðurstaða byggðist á sínum tíma fyrst og fremst á því að Vatnsendi væri óðalsjörð og lýsti Vilhjálmur því hvernig sá misskilningur hefði orðið til. Niðurstaðan frá sjónarhorni Kópavogs er mjög erfið.

Bæjarfélagið á að flytja alla samninga og gerðir yfir á óuppgert dánarbú í stað ætlaðs eigandi en gallinn er auðvitað sá að búið er að greiða milljarða samkvæmt gerðum samningum og ætlaður samningsaðili búinn að eyða peningunum. Því taldi Vilhjálmur að ekki yrði byggt meira á Vatnsendasvæðinu í að minnsta kosti áratug.

Fundurinn var í umsjón Starfsþróunarnefndar og kynnti Guðmundur Lýðsson fyrirlesarann. Þeir Guðmundur og Snæbjörn eru vinnufélagar en Snæbjörn er er fæddur 1961 og er hönnuður og frumkvöðull "Molecular Ice Technology" eða Ör-ískristallatækni. Þessi byltingarkennda tækni er árangur yfir 15 ára hönnunar, rannsóknar- og þróunarvinnu í nánu samstarfi við matvælaiðnaðinn sérstaklega sjávarútveg. Snæbjörn er framkvæmdastjóri Ískjarna ehf.

Snæbjörn sagði að hann hefði dreymt um að verða sjómaður og skipstjóri eins og margir aðrir í hans fjölskyldu en sjóveiki gerði út um þann draum.

Sú tækni sem Snæbjörn hefur þróað gengur í stuttu máli út á að framleiða ís með miklu minni kristöllum en áður hefur verið gert. Kæling á fiski með slíkum ís gengur um 20 sinnum hraðar en með hefðbundinni kælingu og auk þess koma þessir litlu kristallar í veg fyrir að vatn fari inn í fiskinn á eftir.

Snæbjörn og félagar hans voru lengi búnir að reyna að koma þessari tækni á framfæri hér heima og í nágrannalöndunum þegar þeir völdu þann kost að stofna fyrirtækið nanoICE Inc. í Seattle í Bandaríkjunum í samstarfi við þarlenda menn. Það félag sér í dag um þróun tækninnar og framleiðslu nanoICE vélanna og sölu á framleiðsluvörum fyrirtækisins. Snæbjörn situr í stjórn nanoICE Inc. fyrir hönd Ískjarna ehf, sem er einn af aðaleigendunum.