Fréttir

9.1.2014

Rótarýfundurinn 7. janúar féll niður - Óvissa með framtíðar fundarstað

Eins og meirihluti félagsmanna varð var við þá féll seinasti Rótarýfundur niður, þar sem hvorki húsnæði né fundaraðstaða var til staðar þegar félagar mættu til fundar á 19. hæð í Turninum!

Nú þykir ljóst að finna verður nýjan fundarstað og vinnur Húsnæðisnefnd klúbbsins nú hörðum höndum. Vonandi verður unnt að greina frá nýjum fundarstað fyrir næsta fund, þriðjudaginn 14. janúar n.k.

Fundurinn var með mjög óhefðbundnu sniði, þar sem 19. hæð hússins var lokuð þegar félagar mættu til fundar og hvorki matur né fundaraðstaða fyrir hendi!

Rótaryfélagar komu saman í andyri á 2. hæð hússins þar sem rætt var um það sem gerst hafði, en forseti Klúbbsins reyndi að ná sambandi við einhverja sem gætu gefið skýringu á hvers vegna ekki var staðið við að veita klúbbnum þá þjónustu sem samið hafði verið um.

Það var eindregin skoðun þeirra félagsmanna sem viðstaddir voru að með þessu hefðu rekstraraðilar 19. hæðarinnar í raun sagt upp þeim samningi sem í gildi var og Rótaryklúbburinn ætti þann eina kost að finna nýtt húsnæði.

Síðasta sumar þegar mötuneytinu var lokað án samráðs við okkur var stofnuð húsnæðisnefnd til að skoða aðra möguleika á fundaraðstöðu í Kópavogi og var sú nefnd snarlega endurvakin.

Fundinum lauk án allra formlegheita og húsnæðisnefnd var hvött til að hraða störfum eins og mögulegt væri.

Tveimur dögum síðar kom húsnæðisnefnd fram með þá niðurstöðu að heppilegasta húsnæðið væri salur hjá Café Atlanta á Hlíðarsmára 3.

Þar sem fundur Menningarmálanefndar sem átti að vera á þessum tíma féll niður var ákveðið að hann yrði 21. janúar n.k.