Jólafundur
Steinunn Arnþrúður prestur í Hjallasókn flutti hugvekju í tilefni jólanna. Hún lagði út frá frétt, sem hún hafði nýlega lesið um að danskir vísindamenn hefðu uppgötvað að heimurinn geti og mundi falla saman. Þessi þróun væri raunverulega byrjuð úti í geimhvolfinu og myndi ef til vill breiðast út og röðin hugsanlega fljótlega koma að okkar sólkerfi og þar með jörðinni. Töldu vísindamennirnir ekki útilokað að þetta gæti gerst einhvern tíma á næstu milljón árum eða svo en þó væri ekki ólíklegt að á þeim tíma kæmu aðrir vísindamenn sem kæmust að annarri niðurstöðu. Taldi Steinunn að mjög hæpið væri að nota þessa heimsendaspá til að hætta að borga af húsnæðislánunum sínum þó að vissulega væri svarthol hinn endanlegi forsendubrestur.
Hún benti síðan á að boðskapur jólanna væri að við værum öll óendanlega mikils virði og við ættum að hugsa til heldur skemmri tíma en dönsku vísindamennirnir.
Valur Þórarinsson kynnti Andra Snæ Magnason sem var aðalfyrirlesari fundarins. Andri fæddist í Reykjavík 1973 og er Árbæingur í fjórða lið en á einnig ættir að rekja á Melrakkasléttu. Andri lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Sund og B.A. prófi frá Íslenskudeild Háskóla Íslands. Hann hefur gefið út bækur af ýmsum toga m.a. ljóðabækur, leikrit, smásögur og skáldsögur fyrir börn og fullorðna og hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga fyrir verk sín.
Andri var með þrjár bækur meðferðis, tvær ljóðabækur sem voru með fyrstu bókum hans og Tímakistuna sem er nýútkomin og las hann valið efni úr þessum bókum.