Fréttir
  • Andri Þór Lefever 12nóv13

12.11.2013

Molinn 5 ára

Rótarýfundurinn 12. nóvember var í umsjón Ungmennanefndar. Formaður hennar er Guðbergur Rúnarsson. Fyrirlesari fundarins, Andri Lefever, fór yfir það markverðasta á fyrstu 5 árum í rekstri Molans sem er ungmennahús í Kópavogi. Þriggja mínútna erindi flutti Hallgrímur Jónasson.

Forseti setti fundinn og bauð fyrirlesara velkominn. Hann minnti félaga síðan á að á næsta fundi sem væri í umsjá stjórnar ætti að tilnefna menn í embætti í stjórn klúbbsins á næsta starfsári.

Í þriggja mínútna erindi erindi sínu sagði Hallgrímur að daginn fyrir fundinn hefði hann verið að lesa fréttir á netinu og rekist á frétt um peningaleysi í Burkina Fasó. Þar sem hann hafði sjálfur orðið fyrir barðinu á peningaleysi á þeim slóðum ákvað hann að segja okkur sögu af því.

Hallgrimur hafði verið beðinn um að taka að sér skammtíma verkefni sem flugstjóri í V-Afríku og var með aðal bækistöð í Conakry í Gíneu og flugu hann og félagar hans þaðan til ýmissa staða. Þegar átti að kaupa bensín á flugvélina í Bamakó átti flugfélagið ekki peninga fyrir eldsneyti þannig að hann varð að draga upp kortið og kaupa 15 000 lítra af eldsneyti. Í tvígang uppgötvuðu flugmenn síðan að rúmt tonn að eldsneyti hafði horfið af tönkum vélarinnar. Hann stormaði þá í fullum skrúða til fundar við yfirstjórn flugvallarins og fékk þá skýringu að flugvirkjar mættu taka um tonn af bensíni af hverri vél til að nota sem greiðslu til löggæslumanna á flugvellinum. Þannig væri þetta og við því væri ekkert að gera.

Fundurinn var í umsjón ungmennnanefndar og kynnti Guðbergur Rúnarsson formaður hennar fyrirlesarann Andra Lefever. Andri er úr Kópavogi og er kvæntur Magneu Guðrúnu Guðmundsdóttur og eiga þau tvo syni. Hann er menntaður sem grunnskólakennari og hóf sinn starfsferil sem kennari en gerðist forstöðumaður Molans þegar sú starfsemi fór af stað fyrir um 5 árum síðan.

Molinn er menningar og tómstundarmiðstöð fyrir ungt fólk og er til húsa á efri hæð í Tónlistarsafni Íslands. Nú gengur húsið og starfsemin undir nafninu ungmennahúsið og þar er lögð áhersla á að skapa ungu fólki vímuefnalausa starfsaðstöðu.

Í Molanum starfa 5 starfsmenn í þrem stöðugildum og leitast þau við að láta unga fólkið sem kemur þar skipuleggja starfsemina eins mikið sjálf og mögulegt er og koma með sína eigin menningu svo sem tónlist og myndlist inn í húsið.

Nú hafa verið sett í gang virkninámskeið fyrir atvinnulaust ungt fólk sem er byggt á fyrirmynd frá Hafnarfirði sem hefur verið með slík námskeið í nokkur ár. Búin hafa verið til sumarstörf á vegum bæjarins í skapandi greinum og hafa tæplega 30 manns fengið slík störf.

Í heildina var Andri nokkuð ánægður með hvernig þróunin hefur orðið þessi ár sem liðin eru.