Porvoo samstarfið
Rótarýfundurinn 5. nóvember var í umsjón Alþjóðanefndar. Formaður hennar er Hallgrímur Jónasson. Fyrirlesari á fundinum var Hr. Karl Sigurbjörnsson biskup, sem sagði frá Porvoo samstarfinu. Þriggja mínútna erindi flutti Friðbert Pálsson.
Helgi Sigurðsson verðandi forseti stýrði fundi í fjarveru forseta og setti hann fundinn og bauð gesti velkomna.
Helgi minntist síðan fyrrverandi félaga okkar í Rótaryklúbbi Kópavogs Kristjóns Kolbeins sem lést nýverið. Kristjón gekk í klúbbinn 1997 en gekk úr honum 2011 þegar hann var farinn að finna verulega fyrir þeim veikindum sem og lokum báru hann ofurliði. Til að minnast Kristjóns risu klúbbfélagar úr sætum og höfðu einnar mínútu þögn.
Þriggja mínútna erindi flutti Friðbert Pálsson og talaði um vináttu. Hann minnti á að síðast þegar hann hélt erindi þá hefði hann talað um óforskammaðar færslur á facebook sem hann fordæmdi harðlega en nú ætlaði hann að tala úr hinni áttinni.
Hann sagði frá því að nýlátin væri félagi hans úr hópi 41 árs stúdenta feá Menntaskólanum á Akureyri sem fyrr á árum hefði verið hvatamaður að því að þeir félagar stofnuðu sjóð til að styrkja þá úr hópnum sem væru hjálpar þurfi. Nú fyndi hann að sjóðurinn hefði ekki aðeins haft þýðingu sem hjálparsjóður heldur hefði þessi starfsemi styrkt vináttu félaganna að miklum mun.
Fundurinn var í umsjón Alþjóðanefndar og kynnti Jón Sigurðsson fyrirlesarann Hr. Karl Sigurbjörnsson biskup. Karl er kvæntur Kristínu Guðjónsdóttur og eiga þau tvö börn. Hann var skipaður prestur í Vestmanneyjum 1973 og í Hallgrímskirkju 1975 en þar var hann þar til hann var skipaður biskup 1997.
Erindi Karls fjallaði um Porvoo sáttmálann og ýmislegt fleira í sögu kirkjunnar á Íslandi og í Evrópu.
Porvoo eða Borgå er lítill bær rétt austan við Helsinki en þar var lokið við að gera samkomulag milli luterskra kirkna á Norðurlöndum og í Eystrasaltslöndum og biskupakirknanna á Bretlandseyjum .
Samkomulagið var svo undirritað síðla árs 1996 í Niðarósdómkirkju, Westministet Abbey og dómkirkjunni í Tallinn. Tekið hafði langan tíma að undirbúa þennan sáttmála og sagði Karl að faðir hans hefði verið á fundi í Þýskalandi rétt eftir stríð þar sem fyrst hefði verið rætt um nauðsyn á svona samkomulagi.
Sáttmálinn felur í sér viðurkenningu þessara kirkna á siðum og vígslum hjá hverri annarri. Nú geta vígðir embættismenn með réttindi hjá einni kirkju gegnt störfum í öðrum löndum.
Í umræðum í lok fyrirlestrarins var rætt talsvert um möguleika á að gera svipað samkomulag við katólskar kirkjudeildir og jafnvel við gyðinga og islam, en menn töldu það mikilvægt til að gera aðeins friðvænlegra í heiminum.
Karl taldi að það sem yrði erfiðast við samkomulag í þessum anda við katólsku kirkjuna væri afstaða þeirra til kvenna þar sem þeir sætta sig ekki við konur í embættum innan kirkjunnar.
Hvað varðar islam taldi Karl að mestu erfiðleikarnir þar lægju í stjórnkerfinu en þar eru ekki ótvíræðir trúarleiðtogar heldur hafa einstakir imamar mikil völd til eigin framsetninga á sínum kenningum.