Fréttir
  • Einar Kárason 29okt13

29.10.2013

Höfundur Njálu

Rótarýfundurinn 29. október var í umsjón Menningamálanefndar. Formaður hennar er Margrét María Sigurðardóttir. Á fundinum flutti Einar Kárason erindi um þjóðararfinn með hliðsjón af verki sínu í þrem bindum  Óvinafagnaður, Ofsi og Skáld. Þriggja mínútna erindi flutti Sævar Geirsson.

Í þriggja mínútna erindi sínu ræddi Sævar um bókina Ferguson eftir Bjarna Guðmundsson á Hvanneyri. Í bókinni eru margar hnittnar frásagnir af þessum tækjum sem nutu geysilegra vinsælda í sveitum á sjötta áratugnum og síðar. Sennilega var Ferguson langsöluhæsta dráttavél allra tíma á Íslandi en aðdáun manna á honum var svolítið svipuð og þegar valið var á milli Esso og Shell, sem var dælt upp úr sama geyminum. Þegar Sævar hafði lokið lestrinum sagðist hann ekki alveg viss um hvort hann hefði verið að lesa sögu Sambandsins, Dráttavéla, einhvers stjórnmálaflokks eða traktora.

Helgi Ólafson kynnti fyrirlesarann og sagðist hafa verið aðdáandi Einars alveg frá því hann las fyrstu bók hans "Þetta eru asnar Guðjón" sem kom út 1981. Honum leist vel á að fá að hlusta á mann sem skrifaði bækur með rætur í fornsögum og treysti sér í nútíma tölvuheimi að flytja mál sitt án aðstoðar tölvutækni.

Einar ræddi um hver væri höfundur Njálu en það mál hefur talsvert verið rætt áður og stundum á þeim forsendum að höfundurinn gæti verið nánast hver sem væri af þeim 60 000 íbúum landsins á 13. öld. Taldi Einar að auðvelt væri að þrengja hópinn nokkuð verulega, þar sem hvur maður sæi í hendi sinni að Njála væri skrifuð af þrautþjálfuðum rithöfundi og af slíkum var ekki mikill fjöldi á Íslandi á þeim tíma. Raunar stóðu þeir frændur Snorri Sturluson og Sturla Þórðarson öðrum mönnum talsvert framar á þeim vettvangi.

Einar benti á að þeir sem hefðu spáð í hver væri höfundur Njálu hefðu flestir sagt að höfundurinn hefði greinilega lesið Íslendingasögu og kynnt sér hana ítarlega, en menn eru nokkuð sammála um að hún sé rituð af Sturlu Þórðarsyni. Þar sem Íslendingasaga hefur trúlega ekki verið gefin út í mörgum eintökum í upphafi á ofanverðri þrettándu öld er ekki líklegt að margir hafi lesið hana á þeim tíma sem Njála kom út, en líklegt er að ekki hafi liðið margir áratugir á milli útgáfu þessarra tveggja bóka. Hann var því alveg sannfærður um að Sturla hefði skrifað Njálu.

Einar færði fyrir því sterk rök með samanburði á söguþráðum og efnistökum í þessum tveim bókum að höfundurinn væri sá sami og var alltaf með í huga að sú fyrri var samtímasaga á meðan í þeirri síðari var verið að skrifa um atburði sem gerðust þrem öldum áður.

Í miðhluta bókanna þar sem sagt er frá brennunum, annars vegar á Flugumýri og hins vegar á Bergþórshvoli og aðdraganda þeirra atburða eru ótrúlega margir hlutir sem eru svipaðir.

Einar flutti mál sitt skörulega á sannfærandi hátt og eins og áður sagði án aðstoðar nýjustu tæknigræja og er nokkuð öruggt að fáir í Rótaryklúbbi Kópavogs efast nú um hver skrifaði Njálu.