Fréttir
  • Ingi Þór Guðmundsson 22okt13

22.10.2013

Flugvöllurinn í Vatnsmýri

Rótarýfundurinn 22. október var í umsjón ferðanefndar. Formaður hennar er Bryndís Hagan Torfadóttir. Fyrirlesari fundarins, Ingi Þór Guðmundsson forstöðumaður sölu- og markaðssviðs Flugfélags Íslands, ræddi um starfsemi félagsins og staðsetningu flugvallarins í Vatnsmýrinni. Þriggja mínútna erindi flutti Valur Þórarinsson.

Forseti Jón Ögmundsson setti fundinn og bauð gesti velkomna. Hann sagðist verða fjarverandi á tveim næstu fundum.

Í þriggja mínútna erindi sínu sagði Valur að honum hefði fyrst dottið í hug orðið "strax" sem uræðuefni, en sá fljótt að það myndi leiða hann út í pólitíska umræðu sem hann vildi forðast! Næsta val var "alltaf" sem er víst ekki síður tegjanlegt hugtak.

Rafbækur voru honum hugstæðar enda hefðu þær alltaf verið til. Hann nefndi að þau Stephen King og Auður Haralds hefðu gefið út fyrstu bækurnar sem voru einungis rafbækur árið 2000. Valur gerði litla könnun fyrir erindi sitt og komst að því að skólarnir hefðu keypt lesbretti í þúsundatali í fyrir skólaárið þannig að rafbækur eru í mikilli sókn.


Fundurinn var í umsjón Ferðanefndar og kynnti formaður hennar Bryndís Torfadóttir fyrirlesara dagsins sem var Ingi Þór Guðmundsson, forstöðumaður sölu- og markaðssviðs Flugfélags Íslands. Hann er 42 ára og þriggja barna faðir og lauk meistaranámi í markaðsfræðum í Noregi 1998. Hann vann í tvö ár í Noregi áður en hann kom heim og vann hjá Ax hugbúnaðarhúsi og Mest/ Steypustöðinni áður en hann fór til Flugfélagsins. 

Ingi sagðist ætla að tala um innanlandsflug almennt og flugvöllinn í Vatnsmýrinni. Hann nefndi strax í upphafi undirskriftasöfnunina þar sem 70 þúsund landsmenn hefðu viljað hafa flugvöllinn áfram í Vatnsmýri. Nú eru þjónustusamningar við samgönguyfirvöld um 6 áfangastaði í innanlandsflugi, en hann sagðist ekki viss um að þeir yrðu fleiri en 2 eftir um 10 ár.

Þá nefndi hann einnig að innanlandsflugið ætti í svo harðri samkeppni við akstur á þjóðvegum að tiltölulega lítil breyting á stöðu flugsins gæti haft mjög miklar afleiðingar fyrir flugið og í því sambandi sagði hann að könnun sem flugfélagið lét gera sýndi að 60 % farþega segðu það líklegt eða mjög líklegt að þeir myndu hætta að nota innanlandsflugið ef það flyttist til Keflavíkur. 

Samdráttur í innanlandsflugi er ekki bundin við Ísland því sömu sögu er að segja um alla Evrópu þar sem samdrátturinn er víðast enn meiri sennilega vegna aukningar erlendra farþega í íslensku innanlandsflugi.

Lokaorð Inga voru að framtíð innanlandsflugsins væri björt ef opinber gjöld lækka og flugvöllurinn fær að vera áfram í Vatnsmýrinni.