Fréttir
  • Eyþór Eðvarðsson 15okt13

15.10.2013

Róið frá Noregi til Íslands

Rótarýfundurinn 15. október var í umsjón Þjóðmálanefndar. Formaður hennar er Hrafn Harðarson. Fyrirlesari á fundinum var Eyþór Eðvarðsson einn af ræðurunum á árabátnum Auði (Djúpúðgu), sem lagði af stað til Íslands frá Noregi 17. maí sl. og er nú kominn til Færeyja. Þriggja mínútna erindi flutti Guðmundur Jens Þorvarðarson

Forseti Jón Ögmundsson setti fundinn og bauð gesti velkomna. Hann sagði síðan frá Umdæmisþingi Rótary sem haldið var á Selfossi helgina á undan en forseti og ritari fóru þangað og gjalkeri mætti einnig á sérstaka vinnustofu sem haldin var fyrir gjaldkera. Umdæmisþingið var hið fjölmennasta sem haldið hefur verið til þessa og var Rótaryklúbbi Selfoss í alla staði til sóma.

Fyrsti hluti þingsins var í Selfosskirkju og þar var minnst rótaryfélaga sem höfðu látist frá síðasta þingi en þeirra á meðal var Rögnvaldur Jónsson félagi okkar í Rótaryklúbbi Kópavogs.

Í þriggja mínútna erindi sínu sagði Guðmundur Jens frá ferð sem hann og Svava kona hans fóru í um Suðurland og keyrðu austur á Djúpavog. Djúpivogur er orðinn mjög snyrtilegur staður þar sem mörg gömul hús hafa verið gerð upp. Merkasta húsið þar er þó Langabúð en í því húsi er sýning um líf og starf Ríkarðs Jónssonar myndhöggvara og minningarstofa um Eystein Jónsson og konu hans. Á efri hæð hússins er svo minjasafn. Sérstaka athygli vekur á Djúpavogi listaverk eftir Sigurð Guðmundsson, "Eggin í Gleðivík", en 34 eggjum jafnmargra fugla gerðum úr graníti hefur verið komið fyrir á um 200 m svæði við höfnina í Gleðivík.

Þau fóru einnig í Papey sem var í byggð til 1968 en þar er bæði bæjarhúsum og kirkju vel við haldið. Í Papey, sem er stærsta eyja á Austurlandi er mikið fuglalíf.

Fundurinn var í umsjón Þjóðmálanefndar og kynnti Friðbert Pálsson fyrirlesara dagsins Eyþór Eðvarðsson. Eyþór er stofnandi og eigandi fyrirtækisins Þekkingarmiðlunar sem er ráðgjafafyrirtæki á sviði stjórnunar. Hann er með M.A. próf frá Free University í Amsterdam. Eyþór hefur unnið við stjórnendaþjálfun og ráðgjöf síðan 1996 bæði hér heima og í Hollandi. Hann er kvæntur Ingrid Kuhlman og eiga þau tvö börn.

Eyþór fékk þá hugmynd fyrir nokkrum árum að róa á árabáti í slóð víkinganna forfeðra okkar að því er virtist fyrst og fremst vegna þess að hann var fullviss um að þetta hefði ekki verið gert áður. Undirbúningur undir ferðina var mjög viðamikill enda var smíðaður mjög vandaður bátur sem útbúinn var með öllum hugsanlegum öryggistækjum, enda sagði Eyþór að ef þeir hefðu lent í alvarlegu klandri þá hefði ekki þurft að leita að þeim heldur bara að koma og sækja þá. 

Báturinn var nefndur Auður Djúpúðga enda var hún langmerkust landnámsmanna og rakti Eyþór ættir hennar ítarlega bæði upp og niður. Hann lagði einnig áherslu á að íslendingar hefðu skrifað sögu noregskonunga, orkneyjinga og færeyjinga á meðan heimamenn á þessum stöðum skrifuðu ekki einu sinni minnismiða.

Leiðangursmenn mættu í Kristiansand á þjóðhátíðardegi Norðmanna og fengu höfðinglegar móttökur og réru vestur með suðurströnd Noregs og komu við á nokkrum stöðum en héldu til hafs frá Sirivåg eftir talsverða bið eftir hagstæðu veðri. Að lokum héldu þeir af stað í blíðviðri sem ekki entist nema í einn dag en þá skall á veður sem ekki var heppilegt til róðra á árabát á opnu hafi og líkti Eyþór aðstæðum við það að vera inni í þvottavél. Ferðin til Orkneyja tók 7 daga og voru möttökurnar þar síst lakari en í Noregi. Leiðangursmenn fengu að njóta gistrisni heimamanna í tvær vikur á meðan beðið var eftir hagstæðum vindum til Færeyja og á meðan uppgötvuðu þeir að svo til öll örnefni í Orkneyjum eru á íslensku.

Loks var haldið til Færeyja og fengu ræðarar betra veður á þeirri leið heldur en hinni fyrri en samt brotnaði stýrið af bátnum og hvarf í djúpið, en það var einmitt eitt af því sem alls ekki átti að geta gerst. Þá voru góð ráð dýr en þeim tókst að nota fellikjölinn fyrir stýri og halda ferðinni áfram en þegar hann gegndi ekki sínu upphaflega hlutverki tók báturinn miklar dýfur og sagði Eyþór að ef líkja mætti fyrri reynslunni við að vera í þvottavél þá var þetta eins og að vera kominn í þurrkarann. En til Færeyja komust þeir eftir fjögurra daga róður og komu fyrst inn á Suðurey og síðan á Sandey áður en komið var til Þórshafnar. Á öllum þessum stöðum vöru móttökurnar mjög góðar og toppuöu það sem þeir höfðu upplifað á hinum stöðunum ef það var hægt.

Síðasta hluta ferðarinnar til Íslands var frestað til næsta sumars.


Frétt á samskip.is 10.6.2013:

„Ævintýralega skemmtileg og erfið ferð framundan“

fra_noregi

Róðrarkapparir fjórir, Einar Örn Sigurdórsson, Eyþór Eðvarðsson, Kjartan Jakob Hauksson og Svanur Wilcox, sem ætla að róa yfir Atlantshafið á sérstökum úthafsróðrarbát, eru nú á leið til Orkneyja en það er fyrsti viðkomustaðurinn á leið þeirra frá Noregi til Íslands. Vegalengdin frá Sirivåg á suðvesturströnd Noregs þaðan sem þeir lögðu af stað á slaginu kl. 6 í morgun og til Orkneyja er 273 sjómílur í beinni línu. Meðalhraði bátsins er ca. 3 sjómílur á klukkustund sem er sambærilegt við röskan gönguhraða.

„Það er ævintýralega skemmtileg og erfið ferð framundan, það er ég sannfærður um“, sagði Kjartan J. Hauksson skipstjóri rétt fyrir brottför. „Norðursjórinn er með erfiðustu hafsvæðum og við eigum eftir að lenda í töluverðri ölduhæð. Langþráð bið eftir hagstæðum veðurskilyrðum er nú á enda en fyrir okkur skiptir meginmáli að öryggi okkar yfir hafið sé tryggt.“

Fylgjast má með staðsetningu Auðar hér og Facebook-síðu þeirra www.facebook.com/northatlanticrow og á vefnum þeirra www.northatlanticrow.com.

Ef ofurhugunum tekst ætlunarverk sitt að róa frá Noregi til Islands kemst afrekið í heimsmetabók Guinness og munu fulltrúar Ocean Rowing Society fylgjast grannt með leiðangrinum. Leiðin sem áætlað er að róa er um 2000 km í beinni línu og hefur aldrei verið róin áður svo vitað sé.

Dorrit Moussaieff forsetafrú er verndari róðursins.

Ásamt því að setja heimsmet vill áhöfnin með þessari ferð draga fram áhugaverð atriði sem tengja Ísland við Noreg, Orkneyjar og Færeyjar. Í Orkneyjum hafa þeir fengið Tom Muir, einn helsta sagnamann Skota til liðs við sig, og munu þeir hafa sögustund og segja m.a. frá Orkneyingasögu sem var skrifuð af Íslendingum og sagt er frá í Flateyjabók. Tengsl Íslands og Skotlands eru mjög áhugaverð og sem dæmi þá hafa DNA rannsóknir staðfest að íslenskar konur og færeyskar eru að mestu frá Skotlandi og Írlandi. Margir virtir fræðimenn telja að sagnamenning Íslendinga á víkingaöld eigi rætur að rekja til Skotlands og Írlands.

Orkneyingasaga er aðalheimildin um sögu Orkneyja, Hjaltlands og norðurhluta Skotlands, í þrjár og hálfa öld, og rekur einnig mikilvægan þátt í sögu víkingaaldarinnar. Þá voru Orkneyjar krossgötur þar sem fjölbreyttir menningarstraumar komu saman.

Örnefni á Orkneyjum bera þess merki að þar voru norrænir menn sem töluðu það tungumál sem í dag heitir íslenska. Eyjarnar allar bera íslensk nöfn og Kirkwall sem er höfuðborgin heitir Kirkjuvogur.  Á ferjunni sem siglir á milli eyjanna stendur á einum bátnum á tærri íslensku „Með lögum skal land byggja“.