Fréttir
  • Gunnhildur Sigurðardóttir 8okt13

8.10.2013

Bygging leikskóla í Kimberley í Suður-Afríku

Rótarýfundurinn 8. október var í umsjón Alþjóðanefndar. Formaður hennar er Hallgrímur Jónasson. Fyrirlesari var Gunnhildur Sigurðardóttir Rótaryklúbbi Hafnarfjarðar og ræddi hún um Rótaryverkefnið: Bygging leikskóla í Kimberley í Suður-Afríku.
Þriggja mínútna erindi flutti Páll Magnússon.

Forseti Jón Ögmundsson setti fundinn og bauð gesti velkomna. Hann minnti félaga á að um næstu helgi væri umdæmisþing Rótary haldið á Selfossi sem hann sagði að væri ávallt hápunktur hvers starfsárs hjá hreyfingunni.

Þriggja mínútna erindi flutti Páll Magnússon og ræddi um minnisverð Heklugos. Búrfellsstöð var vígð 2. maí 1970 og tveimur dögum síðar hófst gos í Heklu. Páll var starfsmaður virkjunarinnar og búsettur á svæðinu nýfluttur þangað. Talsverðan ugg setti að fólki í upphafi en gosið stóð í 3 mánuði og 5-7 cm öskulag lagðist yfir svæðið. Nú sést þetta lag varla í jarðvegi meðan vikurlagið frá 1104 er allt að meter á þykkt.

Næst gaus Hekla 1980 þegar Páll var að flytja frá Búrfelli, svona kveðjugos, sem stóð aðeins í 3 daga. Enn minna gos varð 1981 sem talið er framhald af hinu fyrra. 17. jan. árið 1991 hófst gos sem stóð í tvo mánuði. 26. febrúar 2000 byrjaði Hekla enn að gjósa en jarðfræðingar höfðu tilkynnt um það fyrirfram sem var mikil breyting frá fyrri gosum. Stór hluti þjóðarinnar lenti þá í umferðaröngþveiti upp í Þrengslum og voru margir tepptir tímunum saman.

Fundurinn var í umsjón Alþjóðanefndar og kynnti Páll Magnússon fyrirlesara dagsins sem var Gunnhildur Sigurðardóttir félagi í Rótaryklúbbi Hafnarfjarðar. Gunnhildur var fædd á Siglufirði en fluttist til Hafnarfjarðar 1962. Hún var hjúkrunarforstjóri fyrst á Sólvangi og síðan á St. Jósefsspítala og starfaði fyrir Rauða Krossinn í tæp 30 ár. Árið 2003 fór hún sem sjálfboðaliði á vegum Rauða Krossins til Suður-Afríku til að hjúkra alnæmissjúkum.

Gunnhildur lýsti í upphafi fyrirlestrar síns aðstæðunum sem voru þar þegar hún kom til Suður-Afríku en þá hafði alnæmi breiðst svo hratt út að meðallífaldur hafði lækkað úr 68 árum í 48 ár á 15 ára tímabili. Hún starfaði í Kimberley sem er um 200 þús. manna bær þar sem áður hafði verið mikið um að vera vegna vinnu við demantanámur sem þar voru en nú var hins vegar mikið atvinnuleysi eftir að námunum var lokað. Í starfi sínu hafði Gunnhildur sér til halds og trausts Önnu Þrúði Þorkelsdóttur sem skömmu áður hafði farið til Suður-Afríku sem sendifulltrúi Rauða Krossins.

Hún var eina hvíta manneskjan inni á svæði svartra þar sem hún hjúkraði sjúkum og sýndi hún okkur myndir af þeim aðstæðum sem fólkið þarna bjó við, en í því sambandi segja myndirnar meira en nokkur orð en bárujárnsskrífli var það orð sem hún notaði um húsakynnin. Túlkaþjónustu hafði hún frá heimafólki en í Suður-Afríku eru 11 opinber tungumál.

Þar sem Gunnhildur var Rótaryfélagi þá hafði hún samband við Rótaryklúbbinn sem var starfandi á svæðinu en enginn af þeim sem þar voru höfðu nokkurn tímann komið inn á svæðið þar sem Gunnhildur eyddi sínum vinnudegi. 

Inni á svæðinu var barnaheimili í bárujárnskumbalda sem líklega fékk þá hugmynd að kvikna hjá Gunnhildi sem nú er fyrir löngu orðin að veruleika.

Hún og Björn Dagbjartsson maður hennar fengu sína Rótaryklúbba til að bindast samtökum með Rótaryklúbbnum í Kimberley og reisa barnaheimili fyrir börn sem misst höfðu foreldra sína úr alnæmi. Björn var þrautreyndur í erlendum samskiptum og þekkti vel til í Suður-Afríku og sá um öll samskipti bæði við aðila í Afríku og við Rótary Foundation en þetta var fyrsta verkefni af þessu tagi sem íslenskir Rótaryklúbbar tóku þátt í. Ýmis vandamál komu upp við undirbúning framkvæmdanna og studdu margir félagsmenn rótary verkefnið langt umfram framlög klúbbanna og lagði einn félaginn fram upphæð sem var um helmingur af byggingarkostnaði hússins.

Húsið sem var reist er um 470 fm og þar er rekið heimili fyrir börn frá 6 mánuða til 6 ára og geta rúmast þar allt að 200 börn.