Starfsgreinaerindi Berglindar Svavarsdóttur
Rótarýfundurinn 1. október var í umsjón Starfsþjónustunefndar. Formaður hennar er Sigbjörn Jónsson. Á fundinum flutti Berglind Svavarsdóttir, hæstaréttarlögmaður, starfsgreinaerindi sitt. Benjamín Magnússon flutti þriggja mínútna erindi.
Í þriggja mínútna erindi sínu sagðist Benjamín ætla að tala um LSD eða LangStærsta Drauminn, en ekki hjá Landsvirkjun að þessu sinni heldur hjá Ferðamálaráði. Hann hafði ferðast um landið sem leiðsögumaður í litlum hópi erlendra gesta og sagði að þá sæi maður hlutina í nokkuð öðru ljósi en þegar ferðast væri bara fyrir sjálfan sig. Hann byrjaði á að fara til Þingvalla þar sem troðningurinn og fólksfjöldinn var slíkur að líkast var að um þjóðhátíð væri að ræða. Víða var verið að valda skemmdum vegna þess að fólk gekk utan merktra slóða og nefndi hann Flosagjá í því sambandi.
Benjamín taldi upp marga staði frá Snæfellsnesi austur í Jökulsárlón þar sem svipaða sögu var að segja. Landmannalaugar í rigningu fannst honum fá einna verstu meðferðina. Þó voru nokkrir ljósir punktar svo sem Þorvaldseyri þar sem menn seldu öskuna úr landi sem hamlað hafði flugi fyrir nokkrum árum og safnið á Skógum þar sem Þórður Tómasson sjálfur er aðal perlan. Að lokum hrósaði hann mjög Landnámssetrinu í Borgarnesi.
Sigbjörn Jónsson, formaður Starfsþjónustunefndar, kynnti fyrirlesara sem var Berglind Svavarsdóttir og flutti hún starfsgreinaerindi sitt.
Berglind lauk lagaprófi frá Háskóla Íslands árið 1989 og byrjaði þá nánast strax að vinna sem fulltrúi hjá sýslumanninum á Húsavík. Hún sagði að slík vinna væri að hennar dómi ein sú besta þjálfun sem ungir lögfræðingar gætu fengið vegna þess hve fjölbreytt starfið væri. Hún nefndi sem dæmi um ólík verkefni að hún var einn daginn í dómarasæti en annan dag fór hún austur í Þistilfjörð að afhenda fálkaorðuna.
Þegar hún fór norður í upphafi var á stefnuskránni að vera þar í eitt ár en árin á Húsavík urðu 17. Hún hætti þó hjá sýslumanni eftir 6 ára starf en síðasta árið var hún staðgengill sýslumanns. Sex ár sagði Berglind að væri fyllilega nægilegt í svona starfi nema stefnt væri á að verða sýslumaður. Hún flutti þó ekki frá Húsavík heldur setti upp sína eigin lögmannsstofu og fasteignasölu 1996. Eitt af því sem auðveldaði reksturinn var að hafa Mývatnssveit í nágrenninu því fólk þar þarf mun meira á lögfræðingum að halda en annað fólk!
Þar sem hún var eini lögfræðingurinn á stofunni varð að skipuleggja hlutina vel svo allt gengi upp og tók hún sem dæmi um hversu langt hún var komin í skipulagningunni að árið 2001 eignaðist hún barn og auðvitað í byrjun réttarhlés. Eiginmaðurinn tók svo fjögurra mánuða barnsburðarleyfi sem ekki var alveg í samræmi við tíðarandann á Húsavík á þeim tíma.
Árið 2003 var lögmannsstofan sameinuð lögmannsstofum á Egilsstöðum og á Höfn undir heitinu Regula. Berglind flutti svo á höfuðborgarsvæðið 2007 og hefur frá 2010 starfað á núverandi vinnustað sem er Acta lögmannsstofa þar sem hún er ein sex kvenna sem eiga stofuna.
Í lok fyrirlestrar síns kom Berglind með þær upplýsingar að mun fleiri lögmenn pr. íbúa væru starfandi á Íslandi en í nágrannalöndum okkar og taldi hún að of mikið væri útskrifað af lögfræðingum úr íslenskum skólum. Nokkur umræða skapaðist um ástæður þess að við þyrftum fleiri lögmenn og einnig um þeirra framgöngu. Berglind taldi að eins og oft væri þá eyðilegðu fáir orðstír heillar stéttar.