Fróðleikur um Rótarýhreyfinguna
Rótarýfundurinn 24. september var í umsjón Rótaryfræðslunefndar. Formaður hennar er Jón Emilsson. Fyrirlesari fundarins var Sveinn H. Skúlason, f.v. umdæmisstjóri Rótarý og flutti hann ýmsan fróðleik varðandi Rótaryhreyfinguna. Þriggja mínútna erindi flutti Ingólfur Antonsson.
Í þriggja mínútna erindi sínu sagði Ingólfur frá haustferð sem hann fór í að Kirkjubæjarklaustri. Farið var af stað í þungbúnu veðri sem lagaðist eftir því sem nálgaðist áfangastað.
Á Klaustri var kapella séra Jóns Steingrímssonar skoðuð en hún var vígð árið 1974. Ákvörðun um bygginguna var tekin árið 1966 á 175 ára árstíð séra Jóns en eins og allir vita þá stöðvaði hann hraunrennslið úr Skaftáreldum í farvegi Skaftár með afar kröftugri prédikun í kirkjunni á Klaustri árið 1783.
Arkitektarnir Helgi og Vilhjálmur Hjálmarssynir hönnuðu kapelluna án endurgjalds og bændur lögðu fram eitt haustlamb á ári í sex ár til að fjármagna verkið.
Gist var á Geirlandi og þar var skoðuð sýning um þróun tæknivæðingar í landbúnaði frá upphafi Íslandsbyggðar til dagsins í dag. Á heimleiðinni var keyrt um Landbrot og Meðalland og að lokum komið við á Þorvaldseyri.
Jón Emilsson, formaður Rótarýfræðslunefndar, kynnti fyrirlesarann Svein H Skúlason. Sveinn er fæddur 1944 og lauk prófi frá Verslunarskólanum 1963. Hann starfaði hjá tryggingafélaginu Ábyrgð og var framkvæmdastjóri Verslunarmannafélags Reykjavíkur og fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík. Síðar var hann hjá Iðnaðarbankanum og Íslandsbanka og loks forstjóri Hrafnistu og síðast framkvæmdastjóri hjúkrunarheimilisins Holtsbúðar.
Sveinn hóf mál sitt á að ræða um Rótaryblaðið og þá nýbreytni sem er í gangi með því að bjóða félögum upp á að fá blaðið á rafrænu formi í stað pappírs. Einnig kom hann inn á samstarf milli klúbba í mismunandi löndum þar sem farið er sameiginlega í eitthvert verkefni. Sem dæmi um slíkt nefndi hann að fyrir nokkrum árum fóru tveir íslenskir klúbbar, þ.e. Rótaryklúbbur Hafnarfjarðar og Rótaryklúbburinn Reykjavík-Austurbær ásamt Rótaryklúbbi í Kimberley í S-Afríku sameiginlega í verkefni, sem fólst í að koma upp barnaheimili fyrir munaðarlaus börn sem voru fórnarlömb alnæmis en þar lögðu klúbbarnir fram 13 milljónir en 13 milljónir komu úr sjóðum Rótary.
Einnig kom Sveinn inn á Rotary Frendship exchange en fyrsta dæmið um slík skipti komu upp þegar Robert Melax sem er félagi í Rótaryklúbbi í Suður-Afríku hafði samband og óskaði eftir að tekið yrði á móti félögum frá rótaryklúbbum í Suður-Afríku gegn samskonar móttöku fólk úr íslensku hreyfingunni. Fólkið frá Suður-Afríku kom og var séð um það á vegum umdæmisins og í fyrra fór hópur héðan til Suður-Afríku og heimsótti m.a. barnaheimilið sem íslensku klúbbarnir höfðu komið á fót. Þá voru raunar félagar úr Rótaryklúbbi Hafnarfjarðar tiltölulega nýlega búnir að vera þar til að mála og sinna ýmsu öðru viðhaldi á húsnæðinu.
Sveinn sagði frá ýmsu öðru úr þessari ferð m.a. heimsókn til ENZA Empowering women en það eru íslensk/suður-afrísk hjálparsamtök sem íslensk kona Ruth Gylfadóttir stofnaði. Markmið samtakanna er atvinnuskapandi uppbyggingastarf fyrir konur sem vegna fátæktar hafa ekki fengið tækifæri til að mennta sig og þroska. ENZA rekur fræðslumiðstöð og kvennasmiðju í Mbekweni fátækrahverfinu, þar sem áhersla er lögð á að hjálpa konum í rekstri smáfyrirtækja. Orðið Enza er úr Zulu máli og þýðir að gera eða framkvæma.