Fréttir
  • Umdæmisstjóri 2013-meö forseta

17.9.2013

Umdæmisstjóri heimsækir klúbbinn

Rótarýfundurinn 17. september var í umsjón stjórnar. Nýr umdæmisstjóri Björn Bjarndal Jónsson frá Rkl-Selfoss var gestur fundarins. Þriggja mínútna erindi flutti Sigbjörn Jónsson.

Forseti Jón Ögmundsson setti fundinn og bauð umdæmisstjóra velkominn á fund hjá Rótaryklúbbi Kópavogs.

Þriggja mínútna erindi flutti Sigbjörn Jónsson. Hann er framkvæmdastjóri hugbúnaðarfyrirtækisins Snertils sem starfar m.a. fyrir ýmis fyrirtæki sem eru á því sviði sem er nefnt  "Media, entertainment and art". Langstærsta íslenska fyrirtækið á því sviði er CCP en hjá því fyrirtæki eru um þúsund manns í vinnu. Síðan má nefna Lazy town og kvikmynd sem Baltasar Kormákur vinnur að o.fl. Sigbjörn sagði að skortur á sérhæfðu starfsfólki væri Akkilesarhæll þessa iðnaðar.

Jón kynnti umdæmisstjóra Björn Bjarndal Jónsson. Björn var fæddur í Neðri-Dal í Biskupstungum og er kvæntur Jóhönnu Róbertsdóttur og eiga þau tvo syni og fjögur barnabörn. Björn er búfræðingur frá HÍ, garðyrkjufræðingur frá Garðyrkjuskóla Ríkisins, skógarverkfræðingur og stundaði nám í umhverfisfræði í Finnlandi. Nú er Björn framkvæmdastjóri Suðurlandsskóga.

Björn hélt fyrirlestur um rótaryhreyfinguna og kom inn á bæði hreyfinguna á heimsvísu og hér heima.

Hann sýndi kökurit þar sem sjá mátti hversu útbreidd hreyfingin er orðin og var sérstök athygli vakin á vexti í Asíu og í Rússlandi er hún einnig að ná talsverðri útbreyðslu. Hann sagði þó að um 130 000 félagar gengju í hreyfinguna árlega þá hyrfu álíka margir úr hreyfingunni á sama tíma.

Hann kom fram með ýmsa tölfræði m.a. sagði hann að vinsælustu fundardagar væru þriðjudagar en þó væri heldur vinsælla að hafa fundi á kvöldin en í hádeginu en þar munaði ekki miklu. Hann fór yfir hina fimm þjónustuþætti hjá Rótary sem eru Klúbbþjónusta, Samfélagsþjónusta, Ungmennaþónusta, Starfsþjónusta og Alþjóðaþjónusta. Hann sagði að sér hefði komið á óvart hversu mörgum mismunandi verkefnum væri sinnt á vegum klúbbanna hérlendis.

Fram kom í máli hans og raunar enn frekar á stuttum fundi sem hann átti með stjórn klúbbsins á eftir, að þegar hann skoðaði upplýsingar um klúbbinn okkar fyrir fundinn þá leit hann á hann sem einn af þeim klúbbum sem hefðu engin vandamál. Hann hlustaði samt á fundargerð fundarins á undan þar sem við ræddum um stöðuga fækkun félaga. Það vandamál taldi hann að þessi klúbbur ætti auðvelt með að leysa og leit á það sem smávægilegt við hliðina á ýmsum öðrum málum sem hann hefði séð.

Björn minntist á nýjan Alþjóðaforseta Rotary fyrir tímabilið 2013 - 2014, Ron Burton og fagnaði sérstaklega kjöri hans en hann hafði kynnst honum áður á ráðstefnu og leist mjög vel á hann. Ron hefur verið mikill baráttumaður fyrir Rótarysjóðinn. Einkunnarorð hans eru: Engage Rotary - Change lives sem hefur verið þýtt: Virkjum Rótary til betra lífs. 

Umdæmisþing Rótary verður haldið á Selfossi 11. og 12. október undir kjörorðunum: Auður jarðar.

Tveir fundarmenn tóku til máls:

Ásgeir Jóhannesson sem m.a. minnti á tvö atriði þar sem okkar klúbbur hefði haft frumkvæði að nýjungum. Annars vegar útnefning eldhugans og hins vegar líknarstarf með Hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð.

Jón Ögmundsson sem minnti á að klúbburinn hefði greitt framlag í Annual funds á síðasta ári og stefndi að því að gera það aftur á þessu ári.


Umdæmisstjóri 2013-30 ára bókin

Forseti afhenti umdæmisstjóra bókina góðu, sem geymir 50 ára sögu Rótarýklúbbs Kópavogs 1961-2011.