Fréttir

10.9.2013

Öflun nýrra félaga

Rótarýfundurinn 10. september var í umsjón Klúbbþjónustunefndar. Formaður hennar er Guðmundur J. Þorvarðarson, sem opnaði umræðu um innri mál klúbbsins. Guðmundur Ólafsson flutti 3ja mínútna erindi.

Í upphafi fundar minntist forseti aðeins á Landgræðslufund klúbbsins í síðustu viku og nýafstaðið golfmót. Jón gerði síðan grein fyrir dagskrá fundarins en enginn fyrirlesari var á fundinum en í þess stað yrði fundurinn notaður til þess að ræða um það hvernig við gætum snúið þeirri þróun við að stöðugt fækkaði félögum í klúbbnum.

Í þriggja mínútna erindi sínu ræddi Guðmundur um hjartaáfall sem hann fékk í vor og þeim aðferðum sem hann notaði til þess að jafna sig á afleiðingum þess. Hjartaáfallið kom án þess að hann hefði fengið aðkenningar sem bentu til hvert stefndi. Þegar kom að endurhæfingu setti Guðmundur upp 18 verkefni eða þrautir sem hann þyrfti að ná og líkti þar með eftir sínu helsta áhugamáli. Þetta gafst svo vel að hann hafði varla lokið þessum ímyndaða golfhring fyrr en hann var kominn út á raunverulegan golfvöll. Er Guðmundi óskað til hamingju með hraðan bata.

Fundurinn var í umsjón Klúbbþjónustunefndar þar sem Guðmundur Þorvarðarson er formaður og hélt hann framsögu um málefnið "Öflun nýrra félaga". Hann hvatti alla félaga til að fylgjast með í sínu nærumhverfi og reyna að finna einhverja sem væru líklegir til að verða góðir félagsmenn í Rótary. Hann tók fram að nauðsynlegt væri að um aktíva félaga væri að ræða og gott væri að fá félaga í starfsgreinar sem fáir eða engir eru í núna. 

Talsverð umræða varð um möguleika á fjölgun félaga og og mætingar í klúbbnum sem menn töldu að hafi farið versnandi ef litið væri yfir langt tímabil. Eins og áður í umræðu um þessi mál kom fram að margir ættu erfitt með að mæta á þeim tíma sem við erum með fyrir fundina, þó virtust menn ekki vera vissir um að neinn annar tími myndi henta betur fyrir alla félagsmenn.

Engin lausn kom fram sem myndi leysa þetta vandamál í eitt skipti fyrir öll og virðist eina leiðin vera að hvetja félaga áfram til að reyna að finna einhverja líklega félaga til framtíðar.