Fréttir
  • Guðmundarlundur-1

3.9.2013

Guðmundarlundur

Rótarýfundurinn 3. september var á vegum Landgræðslunefndar. Formaður hennar er Bragi Mikaelsson. Mætt var í Guðmundarlund á Vatnsenda kl. 17.00, en síðan skoðaður undir leiðsögn Vilhjálms Einarssonar reitur, sem Rótaryklúbburinn hefur í Selhólum. Þegar komið var til baka í Guðmundarlund var grillað og kvöldverður snæddur og Bragi fræddi fundarmenn um tilurð lundarins.


Gestir fundarins voru: Guðrún Elín Jóhannsdóttir, Erla Eggertsdóttir, Gróa Jónatansdóttir, Svava Haraldsdóttir, Auður Ingólfsdóttir, Fanney Gísladóttir, Óla Helga Sigfinnsdóttir, Margrét Friðbergsdóttir, Ingunn Valtýsdóttir, Bjarnheiður Guðmundsdóttir, Rótaryklúbbnum Borgum og Guðni Stefánsson, Rótaryklúbbnum Þinghól.

Fundurinn var með óhefðbundnu sniði og mættu fundarmenn á sínum farartækjum í Guðmundarlund á Vatnsenda. Eftir stutt stopp þar fór hópurinn að Selhólum í Lækjarbotnum en leiðsögumaður þar var Vilhjálmur Einarsson. Vilhjálmur sagði frá gróðurreit, sem þar er en Rótaryklúbburinn fékk úthlutað landsspildu þar árið 1993, 1,7 hektara og hefur verið gróðursett þar á hverju ári síðan en allt hefur verið gert í samvinnu við garðyrkjustjóra Kópavogs. Landið var meðfram svonefndri ofanbyggðargirðingu sem nú hefur verið fjarlægð og jafnframt heimilað að stækka svæðið sem klúbburinn annast.

Að lokum var tekin mynd af fundarmönnum umhverfis skjöld úr lerki með merki Rótary sem þar er. Þess má geta að í 50 ára afmælisriti Rótaryklúbbsins er mynd sem tekin er á þessum sama stað árið 2010 af rótaryfélögum og munu glöggir menn sjá að talsverð breyting hefur orðið á gróðrinum á þessum árum.

Guðmundarlundur-1

Kristinn og Sveinbjörn

Á neðri myndinni eru þeir heiðursfélagar  Sveinbjörn Pétursson (t.v.) og Kristinn Skæringsson

Að lokinni myndatöku hröðuðu menn sér aftur í Guðmundarlund þar sem Bragi var með kvöldverð tilbúinn.

Áður en borðhald hófst var lokið öllum venjulegum formlegheitum varðandi fundinn. Forseti setti fund og ávarpaði fundarmenn á meðan ritari og gjaldkeri voru önnum kafnir við að finna út trúverðugar tölur um tölu félagsmanna og gesta sem viðstaddir voru. Að því loknu var farið með fjórprófið og forseti sleit formlegum fundi.

Að loknu borðhaldi sagði Bragi frá lundinum og hvernig hann varð til og gengu fundarmenn um svæðið í fylgd hans á meðan hann sagöi frá.

Lundurinn er nefndur eftir Guðmundi H. Jónssyni forstjóra BYKO sem ræktaði hann upp.

Í upphafi tók Guðmundur þetta land á leigu hjá Magnúsi Hjaltested á Vatnsenda alls um 7 ha. sem þá var gróðurlaus melur og hóf þar kartöflu og gulrófnarækt. Árið 1961 fór Guðmundur með lítið grenitré sem verið hafði í potti heima á Hlíðarbraut upp í þennan reit og sagði að ef það lifði þá myndi hann rækta þarna skóg. Tréð lifði og skógurinn reis upp eins og við sáum. Nú mun grenitréð vera um 10 m. Árið 1997 fól Guðmundur Skógræktarfélagi Kópavogs reitinn til varðveislu og hefur félagið unnið að margvíslegum endurbótum á svæðinu og m.a. byggt grillskála og gert svæðið að útivistarsvæði fyrir almenning.

Í tilefni þess að fyrir tveim árum voru 50 ár liðin frá því að fyrsta tréð var gróðursett á svæðinu þá gróðursetti núverandi forstjóri BYKO alnafni og sonarsonur Guðmundar annað tré á góðum stað í lundinum og í þetta sinn var það hlynur sem vafalaust mun dafna vel.

Nú er verið að byggja þjónustuhús á svæðinu sem Skógræktarfélagið ræður ekki við að klára af eigin rammleik en er að semja við Kópavogsbæ um fjármagn til að ljúka við bygginguna gegn afnotum af húsinu fyrir ýmis konar æskulýðsstarfsemi á vegum bæjarins. 

Gönguferðinni með Braga lauk við gróðurreit þar sem plöntum sem áður voru í garði Hermanns Lundholm hafði verið komið fyrir á mjög smekklegan hátt.

Hermann var garðyrkjuráðunautur Kópavogsbæjar í rúm 30 ár og má fullyrða að plöntusafn hans hafi verið það stærsta í einkaeign hér á landi.