Fréttir
  • Sunneva og Rúna 27ág13

24.8.2013

Jafningjafræðsla

Rótarýfundurinn 27. ágúst var í umsjón Ungmennanefndar. Formaður hennar er Guðbergur Rúnarsson. Á fundinn komu fulltrúar frá Jafningjafræðslunni, Elín Lóa Baldursdóttir, Rúna Halldórsdóttir og Sunneva Sverrisdóttir. Þær Rúna og Sunneva voru fyrirlesarar fundarins. Þriggja mínútna erindi flutti Bragi Mikaelsson. Á myndinni er Sunneva til vinstri og Rúna til hægri.

Þriggja mínútna erindi flutti Bragi Mikaelsson. Í upphafi síns erindis ræddi Bragi um fyrirkomulag næsta fundar en hann er á vegum Landgræðslunefndar þar sem Bragi er formaður. Farið verður í Guðmundarlund á Vatnsenda, svæðið skoðað og grillað.

Annars ræddi Bragi um laxveiðar í sínu erindi og sérstaklega þá reglu sem hefur mjög rutt sér til rúms, að sleppa öllum löxum sem væru veiddir. Bragi sagðist lengi hafa stundað laxveiðar og stundum veitt vel og stundum illa og jafnvel komið laxlaus úr veiðiferð sem honum fannst ásættanlegt ef enginn lax veiddist, hins vegar fannst honum ótækt að koma með öngulinn í rassinum úr veiðiferð þegar vel veiddist. Þá mælti hann frekar með að sú aðferð væri notuð sem sums staðar tíðkast að setja kvóta á stöng sem ekki mætti fara uppfyrir.

Fundurinn var í umsjón ungmennanefndar. Formaður hennar er Guðbergur Rúnarsson og kynnti hann gesti fundarins og sagði nokkuð frá Jafningjafræðslu hins hússins. Aðalmarkmið jafningjafræðslunnar eru og hafa verið forvarnir gegn hverslags vímugjöfum en starfsemin hefur breyst mjög mikiö í takt við tíðarandann. Jafningjafræðslan fékk á síðasta ári Viðurkenningu Barnaheilla- Save the Children á Íslandi fyrir starf sitt í gegnum tíðina. Sú viðurkenning er veitt árlega fyrir sérstakt framlag í þágu barna og mannréttinda þeirra í tengslum við afmæli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. 

Gestir fundarins voru: Elín Baldursdóttir sem er framkvæmdarstýra Jafningjafræðslu Hins Hússins en Rúna Halldórsdóttir og Sunneva Sverrisdóttir eru fræðarar hjá Jafningjafræðslunni. Þær Rúna og Sunneva voru fyrirlesarar fundarins.

Þær lýstu því starfi sem fræðarar jafningjafræðslunnar inna af hendi en í því starfi eru nú 12 fræðarar þrír úr Kópavogi og níu úr Reykjavík en þeim hefur fækkað undanfarið vegna þess að minni fjármunum hefur verið varið til starfseminnar. Fræðararnir eru á aldrinum 17 - 21 árs og vinna saman í þriggja manna teymi og sinna þeir fræðslu eins mikið í samræðuformi og mögulegt er. Ungmennin sem þau eru að fræða eru á unglingastigi grunnskólanna og njóta nú allir nemendur 10. bekkjar í Kópavogi og Reykjavík auk einhvers hluta 9. bekkja þessarar fræðslu.

Þar sem Jafningjafræðslan starfar mest yfir sumartímann hefur hún mikið samstarf við vinnuskólana bæði í Reykjavík og Kópavogi auk þess sem fræðsla fer fram m.a. í félagsmiðstöðvum og íþróttafélögum.

Hugmyndafræðin er í stuttu máli sú að ungur fræði ungan en það hefur sýnt sig að ungmenni líta oft upp til þeirra sem eru örlítið eldri en þau sjálf og ná því jafningjafræðarar oft vel til nemenda í 10. bekk. Í fræðslunni er mikil áhersla er lögð á að efla sjálfsmynd krakkanna og gagnrýna hugsun en hvottveggja er auðvitað nauðsynlegt til að forvarnarstarf skili fullnægjandi árangri.

Sjá einnig: http://www.youtube.com/watch?feature=player_embedded&v=1_iUy8XqbGMhttp://