Fréttir
  • Gísli Örn Bjarnhéðinsson 20ág13-3

17.8.2013

Búseti

Rótarýfundurinn 20. ágúst var í umsjón stjórnar. Reikningar seinasta starfsárs voru kynntir og fjárhagsáætlun nýs starfsárs samþykkt samhljóða. Gísli Örn Bjarnhéðinsson, framkvæmdastjóri Búseta húsnæðissamvinnufélags, talaði um stefnu og verkefni Búseta í húsnæðismálum. Þriggja mínútna erindi flutti Eiríkur Líndal.

Þriggja mínútna erindi flutti Eiríkur Líndal, en í upphafi síns erindis sagði hann frá því að Anna deildarstjóri í Sunnuhlíð ætlaði að hlaupa hálft maraþon til styrktar starfseminni og óskaði eftir áheitum frá velunnurum.

Erindi Eiríks fjallaði um ferð sem hann og kona hans fóru í til Prísar á dögunum og svo skemmtilega vildi til að þau voru stödd í París á Bastilludaginn 14. júlí sem er þjóðhátíðardagur Frakka. Þau voru mætt snemma dags á Avenue de Champs-Élysées og horfðu þar á miklar skrúðgöngur sem raunar virtust engan enda ætla að taka. Síðar um daginn fóru þau á svæðið hjá Eiffelturninum þar sem m.a. var sunginn þjóðsöngurinn og tóku allir viðstaddir undir og heyrði Eiríkur ekki betur en hver einasti maður hefði haldið lagi!.

Þau hjónin mæltu eindregið með því að menn væru viðstaddir þjóðhátíðarhöld í París ef þeir ættu kost á því.

Fundurinn var í umsjá stjórnar og kynnti forseti fyrirlesara Gísla Örn Bjarnhéðinsson, framkvæmdastjóri Búseta húsnæðissamvinnufélags.

Búseti húsnæðissamvinnufélag var stofnað árið 1983 og er í eigu félagsmanna hverju sinni en nú eru um 2500 félagsmenn í Búseta. Félagið á nú um 720 íbúðir aðallega á höfuðborgarsvæðinu en af þeim eru 200 leiguíbúðir og 520 búseturéttaríbúðir.

Mikil umfram eftirspurn er eftir íbúðum hjá Búseta og eru oft milli 10 og 20 umsóknir um hverja íbúð. Til þess að mega sækja um búseturéttaríbúð þurfa umsækjendur að vera félagar í Búseta en leiguíbúðirnar eru opnar öllum. Mikil áhersla er lögð á að Búseti sé öruggur húsnæðiskostur þar sem íbúar geti treyst því að viðhald fasteignanna sé í góðu lagi einnig taldi fyrirlesari nokkuð víst að íbúðir félagsins væru hagkvæmari kostur en aðrir möguleikar sem væru í boði. Raunar hefði rekstrarfyrirkomulag Búseta dempandi áhrif á hagsveiflur þar sem verðlagning og leiguverð væri lítið háð skammtímaþenslu, þannig væri leiguverð nú umtalsvert lægra en þekkist á almennum leigumarkaði. Þá sýndi það sig að félagið væri nokkuð vel sett eftir hrun.

Nú eru um 300 íbúðir í undirbúningi hjá félaginu flestar á Einholtsreitnum en einnig á Reynisvatnsás og við Laugarnesveg.