Fréttir
  • Þorleifur Friðriksson eldri mynd

14.8.2013

Um Pólland á vængjum hugans

A Rótarýfundinum 13. ágúst flutti Þorleifur Friðriksson, sagnfræðingur, erindi um Pólland fyrr og nú. Jón Höskuldsson flutti 3ja mínútna erindi. Tilkynnt var um árlegt Golfmót Rótarýklúbbanna í Kópavogi, sem fram fer á Leirdalsvelli fimmtudaginn 5. september n.k.

Guðmundur Ólafsson kynnti áætlað golfmót klúbbsins sem að venju verður haldið í samstarfi við Rótaryklúbbinn Borgir. Mótið verður 5. sept. og hvatti hann félaga til að skrá sig sem fyrst.

Þriggja mínútna erindi flutti Jón Höskuldsson. Hann sagði frá ferð sem hann og kona hans fóru til Raufarhafnar þar sem hann sat fund í stjórn Landssambands smábátaeigenda. Þau hjónin keyrðu á einum degi til Húsavíkur og átti Jón varla orð til að lýsa þeirri breytingu sem orðin var á þeim stað frá því að hann kom þar síðast. Þau fengu síðasta herbergið í nýju hóteli sem var í gamalli rækjuverksmiðju. Í bænum var mikið af smekklega uppgerðum húsum og leit hann mjög vel út og allar götur fullar af fólki sem talaði framandi tungumál. Þau keyrðu austur um Melrakkasléttu og til Raufarhafnar en þar hafði breytingin einnig orðið mikil enn á aðra átt. Einungis 120 manns búa að staðaldri á staðnum þó 180 eigi þar lögheimili en þegar hann kom þar síðast 17 ára gamall voru 130 bátar við bryggju og gleðskapur í samræmi við það.

Fundurinn var á vegum Ferðanefndar en formaður hennar er Bryndís Torfadóttir. Hún hóf mál sitt á því að hvetja félagana til að koma með óskir um hvers þeir væntu af ferðanefnd.

Síðan kynnti hún fyrirlesarann Þorleif Friðriksson, sagnfræðing og ferðafrömuð og sagði frá verki hans sem hann hefur lengi unnið að sem er saga verkalýðsfélagsins Dagsbrúnar sem nú er nýkomin út.

Þorleifur sem rekur fyrirtækið Söguferðir kynnti fyrirhugaða ferð til Póllands og ræddi einnig nokkuð um sögu Póllands og þær breytingar sem þar hafa orðið. Pólland hefur verið stórveldi og á öðrum tímabilum nánast horfið af kortinu. Við síðustu breytingu eftir síðari heimsstyrjöldina fluttist Pólland til vesturs þegar Rússar tóku væna sneið af landinu austanverðu en Pólverjar fengu í staðin svæði austan af Þýskalandi.

Í fyrirhugaðri ferð sem verður farin 21. - 28. september verður flogið til Varsjár og farið til héraðsins Masúríu í austanverðu landinu nálægt landamærum Kalingrad. Í Masúríu er "Wolfsschanze" eða Úlfagreni Hitlers þar sem æðstu menn nasista héldu til þegar þeir stjórnuðu hernaðaraðgerðum á austurvígsstöðvunum í heimsstyrjöldinni. Þorleifur taldi Úlfagrenið mun merkari minjar en Arnarhreiðrið sem væri hins vegar meira auglýst upp fyrir túrista.

Í þessarri ferð verður farið mikið um óspillta náttúru og m.a. siglt um ár og vötn í Masúríu og síðan farið í Bielaviezha þjóðgarðinn sem nær yfir landamæri Póllands og Hvítarússlands. Þjóðgarðurinn er síðasti ósnortni skógur Evrópu og er á lista UNESCO sem sameiginlegur arfur mannkyns. Eftir ein dags dvöl í Varsjá verður flogið heim.