Fréttir
  • Eygló Harðardóttir 16júlí13

16.7.2013

Félags- og húsnæðismál

Rótarýfundurinn 16. júlí var á vegum þjóðmálanefndar. Eygló Harðardóttir, þingmaður Suðvesturkjördæmis og félags- og húsnæðismálaráðherra, var gestur fundarains.  Berglind Svavarsdóttir flutti 3ja mín erindi.  Þetta var síðasti fundur fyrir sumarfrí og verður næsti fundur 13. ágúst n.k.

Í 3ja mínútna erindi sínu sagði Berglind frá bók sem heitir ,,Auschwitz, mesti glæpur sögunnar” eftir Lorence Rees sem fjallar um útrýmingafangabúðirnar, hryllingin og virðingaleysið sem mannskepnunni var þar sýndur af þýsku nasistunum. 1,3 milljónir Gyðinga voru sendir í fangabúðir og af þeim dóu 1,1 milljónir. Flestar Evrópuþjóðir utan Þjóðverja verrnduðu ekki þá Guyðinga sem bjuggu í landinu að undanskildum Dönum. Berglind sagði að sér hefði runnið kalt vatn milli skinns og hörunds við lestur bókarinnar.

Hrafn A. Harðarson, formaður þjóðmálanefndar, kynnti hann fyrirlesarann, Eygló Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra. Eygló er fædd í Reykjavík 1972, dóttir Harðar Rögnvaldssonar og Svanborgar Óskarsdóttur, gift Sigurði Vilhelmssyni og eiga þau tvær dætur. Stúdentspróf frá FB 1992, Fil.kand.-próf í listasögu frá Stokkhólmsháskóla 2000 og framhaldsnám í viðskiptafræði HÍ síðan 2007. Hefur m.a. starfað sem framkvæmdastjóri Þorsks á þurru landi, skrifstofustjóri Hlíðardals, viðskiptastjóri Tok hjá Ax hugbúnaðarhúsi og verkefnastjóri hjá Atvinnuþróunarfélagi Suðurlands.

Eygló hóf mál sitt með því að þakka Berglindi fyrir 3ja mín. erndið sem hefði verið þörf áminning. Hún sagði að stærsta mál nýrrar ríkisstjórnar væri húsnæðismálin og unnið væri að því að leysa þau mál farsællega fyrir alla. Ráðherra ræddi um húsaleigumál og benti á að hér væri talað um að eitt ár væri langtímaleiga á húsnæði sem væri mun styttri tíma en tíðkaðist á hinum Norðurlöndunum. Eygló ræddi um fyrirhugaðar aðgerðir hvað varðar skuldavanda heimilanna, húsnæðisstefnu til náinnar framtíðar, en fortíðarvandinn væri mikill sem búið væri að greina og hafin væri vinna við aðgerðir til lausnar. Einnig ræddi ráðherra um nauðsyn þess að styðja betur við fjölskylduna, lögheimili og hjónabandslöggjöfina, störf frjálsra félagasamtaka, skattafríðindi, tryggingakerfið, ekki síst atvinnuleysistryggingakerfið, framtíð lífeyrissjóðakerfisins í landinu og eftirlaun aldraðra.