Gljúfrasteinn
Rótarýfundurinn 9. júlí var í umsjón Menningarmálanefndar. Formaður hennar er Margrét María Sigurðardóttir. Fyrirlesari var Guðný Dóra Gestsdóttir forstöðumaður Gljúfrasteins. Sveinn Hjörtur Hjartarson flutti 3ja mín. erindi.
Í þriggja mínútna erindi sínu sagði Sveinn Hjörtur frá göngu sem hann fór í helgina áður með nokkrum félögum, en þeir gengu á Lómagnúp. Þeir gengu upp Gnúpinn að austanverðu og gengu síðan vestur af og komu niður vestan við Núpstað. Tók gangan þá samtals 10 og hálfan tíma.
Ýmsir hlutir fóru um huga göngumanna á þessum slóðum og fór Sveinn með síðasta erindi úr Áföngum Jóns Helgasonar þar sem hann lýsir grimmri náttúru á Brunasandi og við Lómagnúp á skáldlegan hátt.
Einnig sagði hann frá skipbroti sem varð á sandinum fyrir 110 árum síðan þegar þýski togarinn Friedrich Albert strandaði. Skipbrotsmenn eigruðu um sandinn í 10 daga þar til þeir komu að Orrustustöðum mjög illa haldnir. Tveir íslenskir læknar voru heiðraðir með prússnesku rauðu arnarorðunni vegna frammistöðu sinnar við umönnum mannanna en m.a. varð að taka fætur af fimm þeirra, en 3 höðu látist áður en hinir náðu til byggða.
Margrét María kynnti fyrirlesara dagsins, sem var Guðný Dóra Gestsdóttir. Hún sagði Guðnýju Dóru hafa unnið við mjög mörg mismunandi störf um ævina en nú væri hún forstöðumaður í Húsi skáldsins að Gljúfrasteini.
Guðný fór yfir ýmis atriði á æviferli Halldórs Laxness. Í upphafi sagði hún frá félagsskap sem Halldór og faðir Þóris félaga okkar stofnuðu en þeir voru félagar þegar þeir voru á barnsaldri og skrifuðust á. Þessi bréf hafa varðveist að einhverju leyti og þeir félagarnir stofnuðu félag sem hét Barnafélag Mosfellsdals.
Hún sagði að Halldór hefði verið staðráðinn í því strax á barnsaldri að verða rithöfundur og ferðast um heiminn, en jafnframt að hann myndi gera það á íslenskum skóm, það er að segja hann myndi alltaf hafa það í huga úr hvaða jarðvegi hann væri sprottinn.
Það má segja að þetta hafi gengið eftir því framan af ævi Halldórs var hann oft langdvölum erlendis og ritaði þar margar af sínum bókum. Guðný sýndi okkur mynd af Halldóri og Óskari Halldórssyni í Kaupmannahöfn en Óskar var fyrirmynd hans að síldarspekúlantinum Íslandsbersa sem er ein helsta persónan í Guðsgjafarþulu og ein af mörgum minnisstæðum persónum sem Halldór skapaði. Guðný vakti athygli á því að upplestur Halldórs sjálfs á Guðsgjafaþulu væri nýhafinn í ríkisútvarpinu með ítarefni sem Haukur Ingvarsson hefði tekið saman um bókina.
Ekkert jafnast á við að heyra skáldin sjálf lesa úr verkum sínum.
Halldór gaf sig lítt að veraldlegum hlutum og sá Auður kona hans að mestu leyti um þann þátt og gleymdi Guðný ekki að geta hennar stóra þætti í lífi skáldsins og benti sérstaklega á ævisögu hennar sem Edda Andrésdóttir skrifaði.
Þegar til stóð að selja jörðina Laxnes setti Halldór sig ekki upp á móti því ef undan yrði skilinn landsskiki þar sem nú er Gljúfrasteinn. Þar byggðu þau Halldór og Auður sér hús sem varð heimili þeirra í um hálfa öld en Halldór hélt sig nokkuð fjarri vettvangi þegar húsið var byggt enda sagðist hann vera vondur í að byggja hús. Auður var hins vegar á staðnum og sá um allt en gerði ekki neitt eins og hún orðaði það sjálf.
Þó að oft hafi þurft að taka á móti mörgum tignum gestum með föruneyti á heimili Halldórs og Auðar var húsið ekki stærra en það að mjög erfitt var að koma öllum þeim munum sem nú eru á safninu á Gljúfrasteini fyrir svo vel færi.