Fréttir
  • Forsetaskipti júlí2013

2.7.2013

Stjórnarskipti

Rótarýfundurinn 2. júlí var stjórnarskiptafundur og jafnframt aðalfundur klúbbsins.

Á myndinni hefur fráfarandi forseti, Eiríkur Líndal, hengt forsetakeðjuna um háls viðtakandi forseta, Jóns Ögmundssonar.

Páll Magnússon gjaldkeri greindi frá stöðu fjármála klúbbsins. Allar áætlanir hafa staðist og gott betur. Greitt var til Rótarýsjóðsins 1600 $. Reikningarnir eru komnir til Guðmundar J. Þorvarðarsonar og verða lagðir fyrir fund þegar skoðunarmenn reikninga hafa undirritað þá.

Forseti Eiríkur Lindal flutti skýrslu stjórnar.

Fráfarandi stjórn tók við á fundi 3. júlí 2012. Stjórnina skipuðu Eiríkur Líndal forseti, Jón Ögmundsson varaforseti, Ingólfur Antonsson ritari, Páll Magnússon gjaldkeri og Bryndís Hagan Torfadóttir stallari.

Á starfsárinu voru haldnir 44 fundir . Gestir voru 81 með fyrirlesurum en þeir voru 41. Nöfn fyrirlesara og drög úr erindunum er að finna á heimasíðu klúbbsins. Klúbbfélagar tóku 169 sinnum til máls með fyrirspurnir og ábendingar til fyrirlesara. Haldin voru 33 3ja mínútna erindi.

Ferðanefnd stóð fyrir vorferð til Þingvalla og Stokkseyrar. Myndasýning frá ferð klúbbsins til Þýskalands og Póllands var haldin í skátaheimilinu í febrúar.

Viðurkenninganefnd útnefndi Margréti Bjarnadóttur sem Eldhuga Kópavogs. Margrét var fyrsti formaður íþróttafélagsins Gerplu. Tók stóran þátt í stofnun félagsins og var driffjöður í starfi þess lengi. Hún starfar enn að þjálfun og nú meðal eldri borgara.

Veittir voru styrkir til nýstúdenta fyrir besta námsárangur í raungreinum við Menntaskólann í Kópavogi. Styrkina hlutu Sunna Harðardóttir og Hallmann Óskar Gestsson

Nú eru 56 félagar í klúbbnum. Tveir nýir félagar gengu í klúbbinn 29. jan. s.l., þau Berglind Svavarsdóttir og Helgi Ólafsson. Rögnvaldur Jónsson lést þ. 30. mars. Hann var góður félagi, virkur og áhugasamur í starfinu og er hans sárt saknað. Jón Haukur Sigurðsson sagði sig úr klúbbnum. Hann á erfitt með að sækja fundi þar sem hann er í dag búsettur í Suður-Ameríku.

Að lokum færði Eiríkur meðstjórnendum sínum, formönnum nefnda og félögum bestu þakkir fyrir gott samstarf og ánægjulega fundi. 

Að ræðu forseta var komið að hefðbundnum stjórnarskiptum, afhendingu forsetkeðju og forsetamerkis.

Síðan vék fráfarandi stjórn sæti fyrir nýrri stjórn, en hana skipa: Jón Ögmundsson forseti, Helgi Sigurðsson varaforseti, Bergþór Halldórsson ritari, Guðmundur Þ. Harðarson gjaldkeri og Eggert Þór Kristófersson stallari.

Hinn nýi forseti tók til máls og þakkaði samstarfið við fráfarandi stjórn og greindi frá fundaráætlun, skipun nefnda og verkefnum framundan. Auk hefðbundinna verkefna hyggst stjórnin leggja áherslu á að fjölga félögum um 10%. Vonandi tekst að fjölga konum í klúbbnum. Þetta er sameiginlegt átak sem allir félagar verða að taka þátt í. Fundirnir byrji kl 12.15 og verði lokið kl. 13.15. Lengd fyrirlestra verði ekki lengri en 20 mínútur og lögð verður áhersla fræðandi og skemmtilega fyrirlestra.

Guðmundur Þ. Harðarson ræddi fjárhagsáætlun næsta árs. Mánaðargjald verði óbreytt. Frá og með næsta fundi mun gjaldkeri sjá um greiðslur fyrir matinn.