Fréttir
  • Friðrik Baldursson 18júní13

18.6.2013

Gróður í Kópavogi

Rótarýundurinn 18. júní var í umsjón Landgræðslunefndar. Formaður hennar er Bragi Mikaelsson. Friðrik Baldursson garðyrkjustjóri Kópavogs var ræðumaður dagsins. Haukur Hauksson flutti 3ja mínútna erindi.

Eiríkur forseti klúbbsins fór yfir stöðuna varðandi fundaraðstöðu. Ákveðið var að skipa 4 manna nefnd til að skoða sali í Kópavogi sem kæmu til greina. Samþykkt var að skipa Jón Ögmundsson, Benjamín Magnússon, Margrét Maríu Sigurðardóttur og Vilhjálm Einarsson til þess að finna lausn. Nefndin kemur með tillögur á fundi 25. júní þar sem fundarefnið verður framtíðar fundaraðstaða.

Páll Magnússon gjaldkeri klúbbsins ræddi þau fjárhagslegu áhrif sem umrótið á fundaraðstöðu hefur haft.

3ja mín. erindi flutti Haukur Hauksson. Kallaði hann erindi sitt vangaveltur um ferðaþjónustu. Ræddi hann um þá miklu fjölgun ferðamanna sem streyma til landsins og um stefnuleysi stjórnvalda varðandi uppbyggingu aðstöðu við náttúruperlur landsins.

Bragi Mikaelsson kynnti fyrirlesara dagsins Friðrik Baldursson garðyrkjustjóra Kópavogs. Friðrik fór yfir verkefni garðyrkjustjóra. Taldi hann upp m.a. umsjá allra opinna svæða, leiksvæði, garðlönd, nýframkvæmdir, jólaskreytingar ofl.

Vinnuskóli Kópavogs heyrir undir embættið en þar fá vinnu unglingar á aldrinum 14-17 ára og svo eru sumarstörf fyrir 18 ára og eldri. 950 unglingar eru í vinnuskólanum. 600 ungmenni, 18 ára og eldri starfa m.a. við stjórnun í vinnuskóla og skólagörðum. 230 manns starfa hjá áhaldahúsinu, flest við garðyrkju og slátt. 35 manns í skógrækt og uppgræðslu. Áætlað er að heildar dagsverk séu um 10.300.