Fréttir
  • Steinunn Kirstjánsdóttir 11jún13

11.6.2013

Fornleifarannsóknir á Skriðuklaustri

Rótarýfundurinn 11. júní var í umsjón Þjóðmálanefndar. Formaður hennar er Helgi Sigurðsson. Steinunn J Kristjánsdóttir fornleifafræðingur flutti erindi, sem hún kallaði: Fornleifarannsóknir á Skriðuklaustri: Þarf að endurskrifa miðaldasögu Íslands?. 3ja mínútna erindi flutti Þórir Ólafsson.

Í upphafi fundar greindi forseti klúbbsins frá óvæntri uppákomu þegar klúbbfélagar mættu til fundar í dag. Staðarhaldarar tilkynntu að hætt væri að selja heitan mat í hádeginu og ekki hafi verið gert ráð fyrir okkur! Undarleg framkoma. Fallist var á að klúbburinn fengi að halda fundinn á 20. hæðinni án matar. Stjórn klúbbsins mun strax fara í að kanna lausnir á fundaraðstöðu.

3ja mín. erindi flutti Þórir Ólafsson. Kynnti hann nýútkomið kort af fuglum Íslands. Kortið lýsir öllum íslenskum fuglum á skýran og aðgengilegan hátt. Varpfuglar eru sýndir, myndir af eggjum og upplýsingar um stærð þeirra. Þórir lýsti atferli nokkra fugla sem halda sig í nágrenni sumarhúsa í Laugardal. Sagði frá atferli m.a. hrossagauks, músarindils, maríuerlu, spóa og auðnutittlings.

Helgi Sigurðsson kynnti fyrirlesara dagsins Steinunni Kristjánsdóttur fornleifafræðing og prófessor við Háskóla Íslands. Steinunn gaf nýlega út bók „Sagan af klaustrinu Skriðu“. Bókin fjallar um fornleifauppgröftinn á Skriðu í Fljótsdal. Steinunn stýrði uppgreftrinum, sem er ein viðamesta fornleifarannsókn sem ráðist hefur verið í um árabil á Íslandi. Uppgröfturinn hófst vorið 2000 og stóð til vors 2010. Á daginn kom að þarna var ekki aðeins aðsetur munka með helgihald og heitum bænum, heldur einnig skjól sjúkra og dauðvona. Klaustrið starfaði frá 1493 til 1550.

Steinunn ræddi m.a. neikvæðnina í garð Kaþólsku kirkjunnar sem hún telur að sé á misskilningi byggð. Klaustrið átti um 40 jarðir víða um Austurland. Fólkið gaf kirkjunni jarðir sínar til að forðast hreinsunareldinn. Jarðeignirnar runnu til íslenska ríkisins um aldamótin 1900.