Þátttaka Íslands í Byggða- og sveitastjórnarmálum innan ESB, EES og Evrópuráðsins
Rótarýfundurinn 9. apríl var í umsjón Alþjóðanefndar. Formaður hennar er Friðbert Pálsson. Halldór Halldórsson formaður Sambands ísl. seitarfélaga og varaformaður samningahóps utanríkisráðuneytis um byggða- og sveitastjórnarmál fjallði um þátttöku Íslands í Byggða- og sveitastjórnarmálum innan ESB, EES og Evrópuráðsins. 3ja mínútna erindi flutti Helgi Sigurðsson.
Í upphafi minntist forseti Rögnvaldar Jónssonar, sem lést sunnudaginn 30. mars, eftir erfið veikindi. Rögnvaldur gekk í klúbbinn 1996. Hann var góður félagi, virkur og áhugasamur í starfinu og mun hans sárt verða saknað. Eiríkur bað fundarmenn að rísa úr sætum og minnast Rögnvaldar með einnar mínútu þögn.
3ja mín. erindi flutti Helgi Sigurðsson og fjallaði hann um Napóleon Bónaparte. Tilefnið var að á síðastliðnu ári voru liðin 200 ár frá hrikalegu mistökum hans að ráðast inn í Rússland. Í tilefni þess komu út fjöldi bóka. Fram að því höfðu Englendingar aðallega skrifað sögu hans og túlkað söguna eftir sínu höfði.
Valur Þórarinsson kynnti fyrirlesara fundarins, Halldór Halldórsson. Halldór er fæddur vestur við Djúp en bjó fyrstu æviárin í Reykjavík en fluttist síðan með foreldrum sínum að ættaróðali föður hans í Ögri við Ísafjarðardjúp. Eftir stúdentspróf lagði hann stund á rafvirkjun, vélstjórn og útskrifaðist sem viðskiptafræðingur frá H.Í. Hann er nú að ljúka mastersnámi í mannauðsstjórnun frá sama skóla.
Halldór hefur starfað mikið að sveitastjórnarmálum, m.a. verið bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, formaður sambands sveitarfélaga og er varaformaður samningahóps um byggða- og sveitastjórnarmál í aðildarviðræðum við ESB.
Halldór fór m.a. yfir byggðarstefnu ESB og bar hana saman við þá íslensku. Hann telur stefnu ESB í byggðarmálum mun markvissari. Eins og málum er nú háttað verða sveitarfélögin að innleiða lög frá ESB án þess að geta haft nokkur áhrif. Íslendingar í samstarfi við Norðmenn hafa verið að reyna að hafa áhrif á lagasmíði hjá ESB með hverfandi árangri. Í samningaviðræðum um byggðarmál hefur verið lögð áhersla á sérstöðu landsins, fámenna þjóð í stóru landi. Skiptar skoðanir eru á meðal sveitastjórnarmanna á inngöngu í ESB en þeir eru tilbúnir að kynna sér málið vel og taka síðan ákvörðun þegar samningur liggur fyrir.