Fréttir
  • Ashok Das Indland 12feb12

12.2.2013

Menning, stjórnmál og stjórnarfar á Indlandi

Rótarýfundurinn 12. febrúar var í umsjón Alþjóðanefndar. Formaður hennar er Friðbert Pálsson. Ashok Das sendiherra lýðveldisins Indlands á Íslandi sagði frá menningu, stjórnmálum og stjórnarfari á Indlandi og Bala Kamallakharan, forstjóri GreenCloud, ræddi um ýmsar fjárfestingar. Jón Emilsson flutti 3ja mínútna erindi.

Þriggja mínútu erindi flutti Jón Emilsson og ræddi starf ferðanefndar árið 2011 og 2012. Farin var ferð á Reykjanes undir farastjórn Jónatans Garðarssonar og sjö daga söguferð til Berlínar og Póllands með leiðsögn Þorleifs Friðrikssonar sagnfræðings. Uppskeruhátíð verður haldin 15. mars í skátaheimilinu, Digranesvegi 76, Kópavogi, þar sem boðið verður uppá kvöldmat frá Lárusi og að honum loknum verður myndasýning úr ferðunum.

Sævar Geirsson kynnti fyrirlesara dagsins, Ashok Das sendiherra lýðveldisins Indlands á Íslandi. Hann hefur dvalið á Íslandi um 6 mánaða skeið. Hann er með master gráðu í heimspeki og alþjóðafræðum.

Ashok Das sagði frá menningu, stjórnmálum og stjórnarfari á Indlandi. Menning Indlands er mjög fjölbreytt um allt landið, einstök og með þeim elstu í heimi. Opinber tungumál eru hindi og enska. Um 200 mismunandi tungumál eru töluð í landinu. Indverjar eru 1.3 miljarður og stærð landsins er um 3,3 miljón km². Indverjar eru almennt hindúatrúar, múslímar eru einnig fjölmennir og síðan koma búddismi og kristni. Indland er fjölmennasta lýðræðisríki í heimi. Lífsgæðunum er misskipt, sumir eiga ekki neitt og aðrir aka um á kátiljáum. Landið fékk sjálfstæði frá Bretum 1947. Landinu er skipt niður í fylki sem hver kýs sér fylkisþing og hefur sína eigin stjórn. Þing landsins, ríkistjórn og forseti hafa aðsetur í Delhi.



Bala Indland 12feb12

Með sendiherranum í för var Bala Kamallakharan, forstjóri (CEO) nethýsingarfyrirtækisins GreenCloud (fremst á myndinni). Bala flutti erindi um viðskipti sín á Íslandi og víðar í heiminum og færði klúbbnum bókina: Eternal Gandhi: Design of the Multimedia Museum.

Bala sagði frá veru sinni á Íslandi sl. 6 ár. Hann hefur staðið að stofnun nokkurra fjárfestingafyrirtækja sem halda utan um eignir í tækni- og hótelgeiranum. Hann sagði frá GreenQloud sem er fyrsta græna gagnageymslan sem alfarið er knúin með endurnýtanlegri orku. Bala stofnaði fyrirtækið Startup Iceland sem hefur það að markmiði að styðja sprotafyrirtæki í sjálfbæru rekstrarumhverfi sem vinna í náttúruvænum greinum á Íslandi.