Fréttir
  • Umdæmisstjóri 2012-Peace

18.9.2012

Heimsókn umdæmisstjóra

Rótarýfundur 18. september. Kristján Haraldsson, umdæmisstjóri Rótarý 2012-2013, heimsótti klúbbinn. Eiríkur Líndal sagði frá umdæmisþinginu á Ísafirði og Bragi Michaelsson talaði utan dagskrár um dag íslenskrar náttúru.

Bragi Mikaelsson kvaddi sér hljóðs og sagði frá gróðursetningu skáta á 200 trjáplöntum í Rótarýreitinn við Lækjarbotna í tilefni degi íslenskrar náttúru sem var s.l. sunnudag.

Eiríkur Líndal og Jón Ögmundsson mættu á Umdæmisþing sem haldið var á Ísafirði 14. og 15. sept. sl. Eiríkur lýsti þinginu og sagði m.a. að fyrir utan hefðbundið þinghald þá einkenndist þingið af tónlistaflutningi og sögu Ísafjarðar.

Þema þingsins var harpa hafsins og tengdist fræðsla og viðburðir á þinginu þessu höfuð þema. Nálægð og nýtingu hafsins. Þing sem þetta bíður upp á að félagar í hreyfingunni kynnast betur og maður kynnist viðfangsefni annarra klúbba. Á þinginu gáfust mörg tækifæri til að skiptast á aðferðum og hugmyndum sem geta komið að góðum notum.

Öll framkvæmd og skipulag þingsins var til fyrirmyndar og hugsað fyrir hverju smáatriði í annars flókinni dagsskrá. Eru Kristjáni og Rótarýklúbbi Ísafjarðar færðar þakkir fyrir vel heppnaðan fund.

Eiríkur Líndal , forseti kynnti umdæmisstjóra Kristján Haraldsson. Hann er fæddur 1947, er byggingarverkfræðingur að mennt og hefur verið orkubússtjóri Orkubús Vestfjarða frá 1978. Hann er kvæntur Halldóru Magnúsdóttur og eiga þau 3 börn.

Kristján byrjaði á því að nefna nokkrar staðreyndir um Rótarý og fór síðan yfir starfið og gildi Rótarý. Hann sýndi töflu sem sýndi fjölda klúbba í heiminum, félagafjölda ofl. Sagði frá Rotaract sem er klúbbar fyrir ungmenni á aldrinum 18-30 ára. Einn Rotaract er á Íslandi, Geysir, stofnaður 2009. Umræður urðu í lok fundar um að efla þyrfti þetta starf.

Kristján gat þess að 80% klúbba eru með félaga af báðum kynjum.

Íslenska Rótarýumdæmið var stofnað 1946. Áður heyrðum við undir Danaveldi.

Hversvegna erum við í Rótarý spurði Kristján? Svar hans var til að auka eigin lífsgæði.

Kristján ræddi um fjórprófið og sagði m.a. Ef okkur ber gæfa til þess að starfa í anda fjórprófsins erum við sannarlega að leggja okkar af mörkum á leið að bættu samfélagi.

Kristján hvatti menn til að gera Rótarýstarfið sýnilegra almenningi. Hann hvatti menn ennfremur til að vera virka þátttakendur í starfi klúbbana og hann lagði til að við öl, Rótarýfélagar, leggjum eitthvað af mörkum til Rótarýsjóðsins á þessu starfsári.

Alþjóðaforseti Rótarý 2012-2013 er Sakujin Tanaka frá Japan. Einkunnarorð hans eru þjónusta í þágu friðar.


Umdæmisstjóri 2012-50 ára bókin

Í lok fundar afhenti umdæmisstjóri Eiríki Líndal, forseta klúbbsins, fána alþjóðaforseta (sjá mynd á forsíðu) og Eiríkur færði honum eintak af 50 ára sögu Rótarýklúbbs Kópavogs, sem klúbburinn gaf út á 50 ára afmælinu 6. febrúar 2011.