Fréttir
  • Jón Hákon 11sept12

11.9.2012

Hlutverk Rótarý

Rótarýfundur 11. september: Guðmundur Jens Þorvarðarson, formaður klúbbþjónustunefndar, kynnti fyrirlesara dagsins, Jón Hákon Magnússon, sem ræddi um hlutverk rótarý í viðsjárverðum heimi breyttra tíma. Guðmundur Ólafsson flutti 3ja mínútna erindi.

Guðmundur Ólafsson rifjaði upp minningar frá Berlín. Guðmundur var við nám í rafmagnsverkfræði við Tækniháskólann í Karlsruhe. Sumarið 1961 kom yfir hann löngun til að til að fara til Berlínar, sem var þá inni í Austur-Þýskaland. Óvissuferð sem tók um 11 klst. í lest. Þegar til Berlínar kom tók hann leigubíl án þess að vita hvert halda skyldi. Bað bílstjórann um að finna fyrir sig gistingu, sem hann og gerði. Gestgjafinn var kona sem Jón Leifs tónskáld hefði búið hjá og verið heimilisvinur. Guðmundur dvaldi 6 vikur í Berlín.

Guðmundur Jens Þorvarðarson, formaður klúbbþjónustunefndar, kynnti fyrirlesara dagsins Jón Hákon Magnússon. Jón er með próf í stjórnmálafræði, fjölmiðlun og bandarískri sögu. Hann hefur lengst af verið viðloðandi fjölmiðlun á einn eða annan veg. Var yfirmaður alþjóðlegu fjölmiðlastöðvar Reykjavíkurfundar Regans og Gorbasjovs í Höfða 1986.

Jón er fyrrverandi umdæmisstjóri Rótarý á Íslandi og kallaði erindi sitt: Rótarý fyrr og nú og í framtíðinni.

Jón upplýsti að innan Rótarý væru 34.000 klúbbar með 1,2 milljón félaga í nánast öllum ríkjum og landsvæðum heims eða í 200 löndum. Paul Harris stofnaði Rótarý með þremur mönnum 1905 í þeim tilgangi að þeir gætu hist vikulega, myndað tengsl og spjallað saman. Á einum áratug breiddist Rótarý um öll Bandaríkin, þar næst í Winnipeg-höfuðborg Vestur-Íslendinga og næst í London. Rótarýklúbbur Reykjavíkur var stofnaður 1934. Nú eru starfandi 28 klúbbar á Íslandi með 1100 félögum.

Jón telur Rótarý eina öflugustu friðarhreyfingu heims. Fólk af mismunandi kynþáttum, trúarbrögðum, húðlit og skoðunum hittist vikulega, skiptist á skoðunum og lærir að skilja og virða hvert annað. Hann ræddi um efnahagsvanda og atvinnuleysið í Evrópu, Bandaríkjunum, Kína og ófriðinn í miðausturlöndum. Vandamálin og misklíð milli manna er að finna um allan heim.

Hér kemur Rótarý til sögurnar og gerir sitt til þess að bæta samskipti, auka skilning og efla vináttubönd milli þjóða. Boðskapur Rótarý er að láta daginn í dag verða betri en daginn í gær og enn betri á morgun. Við skulum láta gott af okkur leiða hér heima, örva skilning, velvild og frið um allan heim.