Rótarýfundur 28. ágúst: BIOPHILIA verkefni Bjarkar Guðmundsdóttur.
Margrét María Sigurðardóttir, formaður ungmennanefndar, kynnti fyrirlesara dagsins, Öddu Rúnu Valdimarsdóttur, sem sagði frá Biophilia verkefninu. Margrét María flutti einnig 3ja mínútna erindi.
Þriggja mínúta erindi flutti Margrét María Sigurðardóttir. Fjallaði hún um hjólaferð s.l. sumar. Markmiðið hennar er að hjóla hringinn í kringum landið í áföngum. Ræddi um þá tilfinningu að vera alein og hlusta á fuglana. Umferðaskiltin voru áhugaverð, þau sögðu hvað hefði áunnist og hvað væri eftir.
Fundurinn var í umsjón Ungmennanefndar. Formaður hennar er Margrét María Sigurðardóttir og kynnti hún fyrirlesara dagsins, Öddu Rúnu Valdimarsdóttur.
Adda Rúna er með BA próf í félags og list- og verkgreinafræðum frá Kaupmannahöfn. Hún er verkefnastjóri barnamenningar hjá Reykjavíkurborg. Menningarfáninn, barnamenningarhátíð og Biophilia eru meðal þeirra verkefna sem Adda Rúna stýrir. Adda Rúna hefur haldið ótal námskeið og fyrirlestra á Íslandi og norðurlöndum.
Adda Rúna kynnti verkefnið Biophilia Tónvísindasmiðjur sem er þverfaglegt verkefni Bjarkar Guðmundsdóttur, Háskóla Íslands og Reykjavíkurborgar þar sem sköpun er notuð sem rannsóknaraðferð. Í tengslum við tónleika Bjarkar Biophilia voru fyrstu smiðjurnar haldnar í Hörpu haustið 2011.
58 nemendur á aldrinum 10-12 ára úr fjórum grunskólum í Reykjavík riðu á vaðið í þessari ögrandi og spennandi tilraun þar sem námið fór fram með sjón, heyrn og snertingu. Smiðjurnar vöktu mikla hrifningu og hafa samstarfsaðilar ákveðið að halda áfram næstu þrjú árin eða til ársins 2014.
Annað stig Biophilia byggir á því að koma upp tónvísindasmiðjum í öllum grunnskólum Reykjavíkurborgar með því að útbúa verkfærakistu sem skólar geta fengið að láni. Hlutverk verkfærakistanna er áframhaldandi tilraun til að sameina á nýjan leik vísindi og listir til að skilja stærra samhengi tengsla mannsins við náttúruna. Í verkfærakistunni verður að finna I-pad og tól og tæki til að gera náttúrufræðitilraunir, ýmis áhugaverð hljóðfæri og 10 upptökur af 10 fyrirlestrum vísindamanna frá Háskóla Íslands.
Nemendur fræðast ekki bara um heim tónfræðinnar heldur jafnframt um hulduheima svarthola, kristalla, tungls, eldinga, jarðreka, þyngdarkrafts vírusa, möndulhalla og DNA. Inni í undraheimi Biophiliu læra nemendur á snertivirkni-smáforrit (App) sem eru þau fyrstu sinnar tegundar í heiminum og skapa í framhaldi sínar eigin tónsmíðar. Hugmyndin er að brjóta upp hið hefðbundna kennsluform og hvetja kennara til að vinna þverfaglega. Þessi samþætting í kennslu getur átt hlut í að móta kennsluefni framtíðar.