Rótarýfundur 14. ágúst: Staða ferðaþjónustunnar á Íslandi.
Fundurinn var í umsjón Ferðanefndar. Formaður hennar er Bergþór Halldórsson. Erna Hauksdóttir, framkvæmdstjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, flutti erindi um ferðaþjónustuna á Íslandi. Rögnvaldur Jónsson flutti 3ja mínútna erindi.
Þriggja mínúta erindi flutti Rögnvaldur Jónsson. Ræddi hann um samgöngur út frá Höfuðborgarsvæðinu. Þegar horft er til norðurs hafa verið byggðar vegbrýr sem lítið eru notaðar. Sama á við um tengingar með mislægum gatnamótum á leið til Reykjanesbæjar. Öll þessi mannvirki eru dýr og þeim peningum betur varið í aðrar framkvæmdir. Þá gangrýndi hann veginn austur fyrir fjall og þá sérstaklega mismunandi form vega sem væri til þess fallið að rugla vegfarendur.
Bergþór Halldórsson, formaður ferðanefndar, kynnti fyrirlesara dagsins Ernu Hauksdóttur framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar. Erna er viðskiptafræðingur að mennt og hefur starfað við ferðaþjónustu til fjölda ára.
Erna byrjaði á að gera grein fyrir Samtökum ferðaþjónustunnar en innan þeirra eru allir aðilar sem koma að þjónustu við ferðamenn.
Á árinu 1966 komu 34.000 ferðamenn til landsins en þeir voru á s.l. ári 565.611. Á þessu ári stefnir enn í 17% fjölgun. Gjaldeyristekjur af ferðamönnum verða á þessu ári yfir 200 milljarðar sem er um 19% af útflutningstekjum þjóðarinnar. 18 flugfélög fljúga til landsins í sumar.
Það eru um 500 skipuleggjendur þjónustu við ferðamenn og um 9000 bílaleigubílar eru í notkun yfir sumarið.
Þá sagði Erna frá nýju umhverfismerki, Vakanum, en því er ætlað að bæta þjónustu við ferðamenn.
Erna gerði grein fyrir átakinu „Inspired by Iceland“ sem hófst 2010 og hefur verið haldið áfram en nú er áherslan lögð á lengingu ferðatíma með átaki sem ber heitið „Ísland allt árið“. Þetta átak skilaði strax á s.l ári verulegri fjölgun ferðamanna yfir vetrartímann.
Þá ræddi hún mikið um áformaða skattlagningu gistingar úr 7% í 25,5%. Taldi hún að þessi hækkun myndi hafa veruleg áhrif í ljósi þess að almennur ferðamaður skoðar fyrst hvað kostar að ferðast til landsins og síðan hvað kostar gistingin.
Erna hvatti menn til að spyrja jafn óðum og tóku fjölmargir til máls. Spunnust m.a. miklar umræður um störf í greininni, hvernig á að manna þau, svarta atvinnustarfsemi ofl.