Fréttir
  • Benedikt Arnason 5júní12

2.6.2012

Rótarýfundur 5. júní: Samkeppnisumhverfið fyrir og eftir bankahrunið - Hrafn Harðarson kemur aftur í klúbbinn

Benedikt Árnason aðalhagfræðingur Samkeppniseftirlitsins hélt fyrirlestur um samkeppnisumhverfið fyrir og eftir bankahrunið. 3ja mínútna erindi flutti Eggert Þór Kristófersson.

Í upphafi fundar bauð forseti Hrafn Harðarson velkominn í klúbbinn. Kemur Hrafn nú til liðs við klúbbinn að nýju. Var hann tekin inn í klúbbinn með hefðbundinni athöfn. Hrafn þakkaði góðar viðtökur.

Í 3ja mínútna erindi sínu sagði Eggert frá heimsókn til stærstu olíuhreinsunarstöðvar Noregs. Lagði hann út frá mikilvægi þess að huga vel að nýtingu auðlinda eins og dæmi olíu Noregs sannar.

Formaður Þjóðmálanefndar, Eggert Þór Kristófersson, kynnti fyrirlesara dagsins, Benedikt Árnason aðalhagfræðing Samkeppniseftirlitsins. Benedikt er hagfræðingur frá HÍ, lauk framhaldsnámi í þjóðhagfræði og síðar MBA frá Háskólanum i Toronto í Kanada.

Benedikt fjallaði um endurreisn fyrirtækja eftir hrun. Hóf hann mál sitt á því að rekja vanda fyrirtæja í kjölfar hruns. Meirihluti fyrirtækja gat ekki staðið við skuldbindingar sínar. Bankar urðu í senn þjónustuveitendur og eigendur fyrirtækja á sama markaði. Hlutfallsega meiri vandi hefur ekki komið upp í öðrum bankakreppum. Endurskipulagning hefur átt sér stað með beinum samningum milli kröfuhafa og skuldara án aðkomu stjórnvalda. Sýndi hann línurit af þróun eigin fjár á árunum 2007 til 2010 en þar kom fram neikvætt eigið fé í öllum atvinnugreinum öðrum en sjávarútvegi. Umsvif fyrirtækja hafa dregist saman um 15-20% á sama tíma.

Þá fór hann yfir hvernig samkeppniseftirlitið brást við og rakti tilmæli þess til banka og fjármálfyrirtækja en þau voru þessi helst: • Greina þarf milli lífvænlegra og óhagkvæmra fyrirtækja • Hreinsa þarf vel til í skuldum fyrirtækja í sátt við samkeppnisaðila • Gera þarf skýra arðsemiskröfu • Eignarhaldið taki eins stuttan tíma og kostur er þegar bankar taka yfir fyrirtæki • Fyrirtæki í eigu banka séu rekin sem sjálfstæðir keppinautar • Of mikil skuldabyrði má ekki koma niður á neytendum Þá ræddi hann um ranga hvata í kerfinu og nefndi umsýsluvanda, eigendavanda, ákvörðunarvanda og sanngirnisvanda.

Á árinu 2012 eru jákvæð teikn á lofti. Dregið hefur úr yfirráðum banka og vel hefur gengið að selja þau fyrirtæki sem komið hafa í sölu. Neikvæðu teiknin eru að skuldsetning er enn of mikil. Það leiðir af sér aðra bylgju endurskipulagningar. Kröfuhafar ráða oft á tíðum yfir stórum hluta þess fjármagns sem bundið er í fyrirtækjum. Stjórnendur hafa takmarkað traust á bönkum og stjórnvöldum. Hagvöxtur er lykilatrið – skuldsetning byggir á væntingum um framtíðarhagvöxt.