Fréttir
  • Eldhuginn 6mars12

6.3.2012

Rótarýfundir 6. mars - Magnús Jakobsson útnefndur Eldhugi Kópavogs 2012 fyrir störf að félagsmálefnum íþróttafólks í 59 ár

Magnús Már Harðarson, forseti klúbbsins, afhendir nafna sínum verðlaunagrip eftir listakonuna Ingu Elínu Kristinsdóttur. Með þeim er Benjamín Magnússon, formaður viðurkenningarnefndar. Þetta er í 16. sinn, sem klúbburinn tilnefnir Eldhuga Kópavogs.

Á Rótarýfundi 6. mars var Magnús Jakobsson útnefndur Eldhugi Kópavogs 2012. Benjamín Magnússon, formaður viðurkenningarnefndar, gerði grein fyrir útnefningunni.

3ja mínútna erindi flutti Geir A Guðsteinsson. Fjallaði hann um gildi kórsöngs á íslandi og sögu fyrstu karlakóranna.

Síðan gerði Benjamín grein fyrir útnefningu Eldhuga Kópavogs 2012 með eftirfarandi orðum:

"Forseti, ágætu Rótarý félagar og aðrir góðir gestir.

Í dag útnefnir Rótarýklúbbur Kópavogs Eldhuga Kópavogs í 16. sinn. Að þessu sinni varð fyrir valinu Magnús Jakobsson málmsteypumaður sem Eldhugi Kópavogs 2012, fyrir störf hans að félagsmálefnum íþróttafólks allt frá árinu 1953 til dagsins í dag, eða í 59 ár.

Í viðurkenninganefnd sitja auk mín; Guðmundur Ólafsson, Ólafur Tómasson, Sigfinnur þorleifsson, Helgi Sigurðsson og Werner Rasmusson. Hlutverk Viðurkenningarnefndar er að velja árlega einstakling eða einstaklinga sem með sérstöku framtaki hafa vakið athygli og umtal í Kópavogi á þann hátt sem samræmist anda og hugsjón Rótarý.

Magnús Jakobsson er fæddur 1939, að Hömrum í Reykholtsdal. Foreldrar Jakobs voru Jakob Sigurðsson, bóndi á Hömrum og kona hans Aðalbjörg Valentinusdóttir. Magnús var næstelstur í 7 systkynahópi, sem samanstóð af 6 stelpum og einum strák. Magnús er kvæntur Valgerði Sigurðardóttur og eiga þau 3 börn. Börnin eru: Sigurður, matreiðslumaður, Fríður, tanntæknir og Hallgrímur, verslunarstjóri.

Faðir Magnúsar var mikill áhugamaður um félagsmál og íþróttir og starfaði snemma með Ungmennafélagi Reykdæla. Má segja að af störfum föður síns hafi áhugi Magnúsar á félagsmálum kviknað strax í bernsku.

Magnús byrjaði snemma afskipti af félagsmálum og að keppa í íþróttum og 14 ára að aldri var hann kominn í íþróttanefnd Ungmennafélags Reykdæla og 18 ára var hann orðinn formaður félagsins. Ungmennafélagið átti og rak félagsheimilið Logaland og fylgdi þeirri eign mikil vinna einkum á sumrin vegna td fjölda sveitaballa sem þá tíðkuðust, en yfir vetrartímann fór þar einnig fram mikið félagsstarf.

Eftir grunnnám í Reykholti lá leiðin í Íþróttaskólann í Haukadal til Sigurðar Greipssonar og 1960 hefur Magnús nám í málmsteypu í Málmsteypunni Hellu í Reykjavík undir handleiðslu Leifs Halldórssonar og Ólafs Gunnarssonar. 1964 gekk Magnús til liðs við frjálsíþróttadeild Breiðabliks og var kosinn í stjórn deildarinnar árið eftir, hann varð svo formaður deildarinnar1967-1970 en þá var hann kominn í stjórn Frjálsíþróttasambands Íslands. Hann var í stjórn FRÍ samfellt frá 1968-1986 eða í 18 ár. Magnús var svo kjörinn formaður Frjálsíþróttasambands Íslands 1990 og var það í fjögur ár eða til 1994, eftir það var hann formaður mótanefndar FRÍ í 2 ár til 1996. Magnús kom aftur að stjórn frjálsíþróttadeildar Breiðabliks 1994 og hefur verið í stjórninni óslitið síðan og er enn að. Sagt er að ekki sé hægt að halda sómasamlegt stórmót í frjálsum íþróttum á Íslandi öðruvísi en að Magnús komi þar að.

Magnús stjórnaði frjálsíþróttakeppninni á öllum Landsmótum UMFÍ frá 1984 til 2001 og að auki td Landsmótinu í Kópavogi 2007. Síðastliðið sumar fór fram á Laugardalsvelli einn riðill í Evrópubikarkeppni í frjálsum íþróttum, þar sem lið frá 10 þjóðum mættust og var Magnús fenginn til að skipuleggja mótið og dómgæsluna, en við dómgæslu þurfti að kalla til um 150 manns. Þá er rétt að geta þess að fyrir um 3 árum var haldið á Kópavogsvelli undir stjórn Magnúsar, Norðurlandameistaramót í Fjölþrautum og var til þess tekið, að forsvarsmenn erlendu liðanna lýstu því yfir að þetta mót hafi verið eitt best framkvæmda fjölþrautamót sem þeir höfðu mætt á.

Spurður um góða frammistöðu hans í gegnum árin í stjórnun frjálsíþróttamóta svarar Magnús því gjarnan til af lítillæti og á hæverskan máta, að hann hafi alltaf verið mjög heppinn með að fá til sín gott samstarfsfólk.

Þó Magnús sé orðinn 72 ára er hann enn aðaldriffjöðrin í öflugu starfi frjálsíþróttadeildar Breiðabliks. Hann rifjar upp aðstöðumun til íþróttaiðkana í Kópavogi frá því hann kom hingað fyrst, en þá var notast við litla salinn í Kópavogsskóla, grasvöllinn í landi Smárahvamms og litla blettinn við Digranesskóla við Álfasteininn sem aldrei var sprengdur. Í dag státar bærinn að fullbúnum íþróttavelli fyrir frjálsar íþróttir í Kópavogsdal og fjölnota íþróttahúsum svo sem Smáranum, Fífunni og Kórnum.

Magnús hefur á ferli sínum verið sæmdur öllum þeim heiðursmerkjum sem íþróttahreyfingin hefur yfir að ráða svo sem með meiru gullmerki ÍSÍ árið 1987, gullmerki UMFÍ árið 2001, silfurmerki UMSK árið 2004 og gullmerki UMSK árið 2011. Magnús var heiðraður sérstaklega af Kópavogsbæ árið 2009 fyrir framúrskarandi og óeigingjarnt starf að æskulýðsmálum í bænum til margra ára. Árið 2010 var Magnús sæmdur Heiðurskrossi ÍSÍ, sem er æðsta heiðursmerki Íþróttahreyfingarinnar á Íslandi.

Til hamingju með tilnefninguna Magnús Jakobsson– Eldhugi Kópavogs 2012.

Verðlaunagripurinn er hannaður af listakonuninni Ingu Elínu Kristinsdóttur. Ég vil biðja forseta Rotaryklúbbs Kópavogs Magnús Má Harðarson um að afhenda nafna sínum verðlaunagripinn."


Magnús Jakobsson með gripinn

Þá tók til máls Magnús Jakobsson og þakkaði auðsýndan heiður. Gerði hann að umtalsefni allan þann fjölda samverkamanna sem hann hefði haft í gegnum tíðina og tileinkaði þeim ekki síður þennan heiður. Sagði hann frá uppvexti í Reykholtsdal og þeirri hefð sem þar hafði skapast að litið væri á alla sem jafningja óháð aldri. Þetta var ungu kynslóðinni á þessum tíma mikil lyftistöng. Loks sagði hann í stuttu máli frá íþrótta- og námsferli sínum og félagsstörfum í Borgarfirði og síðar í Breiðabliki og á vettvangi landssamtaka frjálsíþróttafólks.  

Til máls tóku Geir A Guðsteinsson og Ásgeir G Jóhannesson