Rótarýfundur 14. febrúar - Deilurnar um Landið helga af sagnfræðilegum sjónarhóli Ísraels
Fundurinn var í umsjón Alþjóðanefndar. Formaður hennar, Sigbjörn Jónsson, kynnti fyrirlesara dagsins, Gunnlaug A. Jónsson, prófessor í guðfræði við HÍ. Erindi hans bar nafnið "Deilurnar um Landið helga. Skyggnst um af sagnfræðilegum sjónarhóli Ísraels". 3ja mínútna erindi flutti Guðmundur Ólafsson.
Guðmundur Ólafsson flutti 3ja mínútna erindi og fjallaði um heimasíðu klúbbsins og hvatti til aukinnar notkunar hennar.
Sigbjörn kynnti Gunnlaug. Hann er fæddur 1952 og er prófessor í guðfræði og ritskýringu Gamla testamentisins við HÍ. Hann lauk doktorsprófi í þessum fræðum frá Lundi.
Gunnlaugur fjallaði um viðhorf til deilu Ísraels og Palestínu. Vinsamleg viðhorf hafa þróast í beinlínis fjandsamleg á síðustu árum og Íslenskir ráðamenn sniðganga þá ísraelsku.
Hann rakti sögulegar forsendur þessarar deilu allt aftur til 700 f.kr. og til þess er Rómverjar unnu sigur á gyðingum um 70 e.kr. Þá hljóp hann yfir langt tímabil og fjallaði næst um uppaf Síonismans en hann er í grunninn barátta fyrir rétti gyðinga til búsetu í landinu helga.
Árið 1917 gáfu Bretar út Balfour yfirlýsinguna um rétt gyðinga til stofnunar þjóðarheimilis í landinu helga. Rakti Gunnlaugur áhrif hennar en lauk síðan umfjöllun þessa hluta erindisins með frásögn um helförina, en 6 millj. gyðinga voru drepnir án þess að þeim bærist hjálp.
Ísland er áhrifavaldur í sögu Ísraels en Thors Thors flutti á sínum tíma ræðu á þingi sameinuðu þjóðanna sem talin er hafa haft veruleg áhrif á að SÞ samþykkti stuðning við stofnun Ísraelsríkis á vegum sameinuðu þjóðanna, sem lauk með stofnun þess 1948. Nær samstundis réðust 6 arabaþjóðir á landið en átök hafa verið á svæðinu síðan.
Ísraelsmenn telja að ef þeir tapi stríði séu dagar þeirra taldir. Rakti hann nokkur dæmi átaka og hryðjuverka. Þá fjallaði hann um friðarsamkomulag Egypta og gyðinga 1979, Óslóarsamkomulagið 1993 en það var í raun 5 ára áætlun um úrvinnslu friðar milli Ísraels og Palestínu. Síðan nefndi hann Bharak –Clinton friðartilboðið sem Arafat hafnaði án umræðu en það er almennt mál manna að þar hafi Arafat leikið stórkostlega af sér.
Að síðustu greindi hann frá viðhorfum nokkurra einstaklinga frá síðustu árum sem staðið hafa í forsvari fyrir Ísraelsmenn og varpaði fram spurningunni hvort lausn væri í sjónmáli. Flestir eru sammála um að eina færa leiðin sé tveggja ríkja lausn. Grundvallaratriði af sjónarhóli Ísraels er að öryggi þeirra sé tryggt og að tilveruréttur þeirra sé virtur.
Fyrirspurnir komu frá Helga Sigurðssyni og Benjamín Magnússyni.