Rótarýfundur 7. febrúar - Líffæragjafir
Fyrirlesari var Sveinn Magnússon, læknir og skrifstofustjóri í velferðarráðuneytinu og fjallaði um líffæragjafir.
Forseti las bréf frá Sigurjóni Sigurðssyni þar sem hann segir sig úr klúbbnum vegna árekstra við vinnu.
Jón Emilsson formaður ferðanefndar kvaddi sér hljóðs og óskaði eftir því að menn staðfestu þátttöku í væntanlegri ferð til Póllands.
Fundurinn var í umsjón Rótarýfræðslunefndar. Formaður hennar, Jóhann Árnason, kynnti fyrirlesarann Svein Magnússon. Sveinn er Hafnfirðingur lauk kandidatsprófi 1977. Hann er sérfræðingur í heimilislækningum og lyflækningum frá Svíþjóð. Hann var framkvæmdastjóri Heilsugæslunnar í Garðabæ frá 1983 til 1992, héraðslæknir Reykjaneshéraðs 1990 til 2002 og skrifstofustjóri í heilbrigðisráðuneyti og síðar velferðarráðuneyti frá 1998.
Sveinn hefur verið formaður líffæraígræðslunefndar síðastliðin 4 ár. Líffæraígræðslur snúast um að gefa og þiggja hin ýmsu líffæri sem sífellt fer fjölgandi samfara aukinni þekkingu og tækni. Líffæraflutningar árið 2009 voru alls um 100.000.
Mjög mikill skortur er á líffærum til ígræðslu. Ætlað samþykki er í umræðu hér á landi núna en það hefur í för með sér að gert er ráð fyrir fólk sé samþykkt líffæragjöf nema það hafi sértaklega hafnað því.
Einn læknir, sem starfar á Landspítalanum, hefur yfirumsjón með allri líffæraígræðslu hér á landi. 1970 fór fyrsta líffæraígræðslan á íslenskum sjúklingi fram í London. Fyrsta nýrnaígræðslan fór fram hér á landi 2003. Í dag erum við sjálf okkur nóg varðandi nýru til ígræðslu.
Samningar um líffæraígræðslur hafa lengst af verið við Dani en eru nú við Shalgrenska sjúkrahúsið í Svíþjóð. Mjög stíf skilyrði eru fyrir því að líffæragjöf við andlát sé möguleg. Af 550 sjúklingum sem létust á Landspítala á árunum 2003 til 2009 voru aðeins 33 sem komu til greina sem gjafarar.