Rótarýfundur 3. janúar - Óskar Guðmundsson og Brautryðjandinn
Á þessum fyrsta fundi ársins sagði Óskar Guðmundsson frá bók sinni Brautryðjandanum, sem fjallar um ævi Þórhalls Bjarnarsonar biskups. Ólafur Tómasson flutti 3ja mínútna erindi
Forseti las upp bréf frá Margréti Friðriksdóttur skólameistara MK þar sem þakkaður var styrkur frá Rótarýklúbbi Kópavogs til handa Aroni Inga Ingasyni, sem forseti afhenti á útskrift MK 20. desember sl.
Ólafur Tómasson flutti 3ja mín. erindi og gat þess í upphafi að hann hefði flutt svo mörg slík að sennilega væri hægt að flytja þau öll aftur, svo fáir væri enn í klúbbnum frá því að hann gekk í hann. Ólafur fjallaði mikinn frostavetur í heimbæ sínum Akureyri veturinn 1941 – 1942, Pollurinn var ísi lagður, hann lýsti vel bæjarbragnum á þessum og sagði frá þeim verslunum sem báru erlend heiti, s.s. Hamborg og París. Frásögnin endaði með frásögn af heimsókn hermanns til nokkurra barna og unglinga en með honum í för var apaköttur.
Guðmundur Ólafsson kynnti gest fundarins, Óskar Guðmundsson rithöfund, mág Guðmundar og mikinn bóhem. Hann varð stúdent frá MA, stundaði nám við Háskóla Íslands og erlenda háskóla, var ritstjóri Stúdentablaðsins 1979, Norðurlands, blaðs norðlenskra kommúnista 1981 – 1986, síðan á Þjóðviljanum 1987, Helgarpóstinum 1988 – 1992. Hóf þá að gefa úr Þjóðlíf og gaf út Sögu Alþýðubandalagsins, Ævisögu Guðlaugar Bergmanns, Snorra sögu Sturlusonar og fleiri rit.
Fyrir síðustu jól kom svo út saga Þórhalls Bjarnasonar, fyrrum biskups. Óskar sagði Þórhall fæddan að Laufási í Eyjafirði 1855, hafa verið praktískan hugsjónamann sem fékk boð um að fara í klausturskóla í Frakklandi en var neitað af foreldrum sínum. Í hans stað fór Jón Sveinsson, Nonni.
Óskar sagði marga hafa haldið að starfsvettvangur Þórhalls yrði á sviði stjórnmálanna, og víst er að Þórhallur var á báðum áttum um það hvort hann ætti að ganga í þjónustu kirkjunnar. Hann hóf sinn prestskap í Reykholti í Borgarfirði. Þórhallur hóf útgáfu á Kirkjublaðinu sem kom út á hálfs mánaðar fresti en á þeim tíma byggði hann hús í Reykjavík sem fékk nafnið Laufás sem Laufásvegur dregur nafn sitt af.
Þórhallur var mikill fylgismaður alls kyns framfara í þjóðfélaginu, studdi m.a. lagningu símans og vildi leggja járnbrautir sem víðast um landið. Hann var kjörinn biskup árið 1908, ekki síst til að sætta stríðandi fylkingar innan kirkjunnar. Heimili hans í Laufási var lengi vagga og umræðuvettvangur fyrir fylgismenn Framsóknarflokksins, Alþýðuflokksins og Ungmennafélag Íslands.
Fyrirspurnir bárust frá Jóni Sigurðssyni, Helga Sigurðssyni, Geir A. Guðsteinssyni og Helga Laxdal.