Fréttir
  • Eggert forstjóri Granda 22nóv11

22.11.2011

Rótarýfundur 22. nóvember - Sjávarútvegsmál

Eggert B. Guðmundsson, forstjóri HB Granda, flutti erindi um sjávarútvegsmál og Hallgrímur Jónasson flutti 3ja mínútna erindi.

Forseti kvaddi sér hljóðs og árnaði Sigurði Jónssyni heilla með 90 ára afmælið 16. nóvember og færði honum gjöf frá klúbbnum. Klúbbmeðlimir heiðruðu Sigurð með því að rísa úr sæti. (Sjá einnig aðra frétt)

Guðbergur tilkynnti um jólafund 13. desember kl. 18:00 og sagði frá fyrirhugaðri dagskrá.

3ja mínútna erindi flutti Hallgrímur Jónasson og sagði m.a. frá rímnakeppni og fór með tvær vísur á ensku. Þá fjallaði hann um innra starf klúbbsins. 

Fundurinn var í umsjón Þjóðmálanefndar. Formaður hennar, Eggert Þór Kristófersson, kynnti fyrirlesara dagsins Eggert B Guðmundsson forstjóra HB Granda.  Eggert er fæddur í Reykjavík og stúdent frá MR 1983. Hann er menntaður verkfræðingur frá Þýskalandi, Belgíu, Spáni og Bandaríkjunum.

Erindið fjallaði um stöðu sjávarútvegs á Íslandi.

Í upphafi sagði hann frá HB Granda en það er stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins og gerir út 12 skip. Vinnsla er í Reykjavík, Akranesi og Vopnafirði. Starfsmenn eru um 700.

Þá fjallaði hann um rekstrarumhverfi greinarinnar, annars vegar afla, vinnslu og sölu og hins vegar pólitískt umhverfi. Dró hann upp mynd af því annars vegar hver séu almenn markmið með sjávarútvegskerfinu og hins vegar stefnumörkun ríkisstjórnarinnar.

Taldi hann að Ísland væri í farabroddi varðandi vernd fiskistofna. Arðsemi væri drifkraftur verðmætasköpunar og leiddi til hagkvæmni í rekstri greinarinnar. Verðmæti greinarinnar skiptist milli launa, birgja, opinberra gjalda og hagnaðar. Verðmætasköpunin skiptir því meginmáli, því meiri verðmætasköpun því meira til skiptanna. Atvinnusköpun án verðmætasköpunar er ekki sjálfbær.

Vinnslustöðvum hefur fækkað vegna minni afla og hagræðingar innan greinarinnar. Sjávarútvegurinn vill sátt um greinina. Eggert varpaði fram þeirri spurningu hvort það væru hagsmunir einhverra að standa gegn slíkri sátt.

Að síðustu fjallaði hann um innköllun aflaheimilda og taldi að þessi leið stangist á við önnur atriði í stefnumörkun ríkisstjórnarinnar. Taldi hann að aðgerðir ríkisstjórnarinnar leiddu í flestu til ófarnaðar og væru ósamræmanlegar rekstrarmarkmiðum greinarinnar.